148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

framtíðarskipulag LÍN.

[10:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra. Það þarf að vanda til verka. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort það þurfi að dragast svona úr hófi að skipa stjórn LÍN. Ekki nema hæstv. ráðherra sé í rauninni að lýsa yfir vantrausti á núverandi stjórn LÍN. Ég veit ekki betur en að hún sé ágætlega skipuð, hæfum einstaklingum sem m.a. hafa lögfræðimenntun og metnað í samfélagslegri ábyrgð. En gott og vel. Ég skil vel að ráðherra vilji leggja sínar áherslur inn í stjórnina, en ég hvet hana til þess að afgreiða þessi mál sem fyrst.

Ég fæ ekki betur séð en að ég hafi ekki fengið nein svör um hvenær ráðherra ætlar að klára þessi mál. Hvenær á að skipa endurskoðunarnefndina? Hvenær á að skipa stjórn LÍN? Hvenær sjáum við fyrir endann á þessum málum? Eins og ráðherra gat réttilega eru átta ár langur tími. Doktorsnámið er búið hjá þeim einstaklingum sem voru að hefja nám þegar öll þessi vinna fór af stað. Stúdentar eiga skilið skýr svör af hendi ráðherra ríkisstjórnar sem er búin að boða innviðauppbyggingu. Við ætlum að styðja ríkisstjórnina í innviðauppbyggingu (Forseti hringir.) en hún verður að fara að koma sér að verki.