148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

málefni LÍN.

[10:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem hér kemur fram. Það er rétt að umgjörð í kringum sjóðinn og hvernig við högum þessum málum til framtíðar skiptir verulegu máli. Annað sem hefur átt sér stað og hefur til að mynda verið að gerast á síðustu fimm árum er mun meiri áhersla á allt sem heitir símenntun og tækifæri þeirra sem vilja fara í endurmenntun. Þegar við endurskoðum þessi lög vil ég líka taka tillit til þess þannig að við hugum að sjálfsögðu alltaf að fjárhagsstöðu nemenda en líka að aldursdreifingu þeirra sem hafa aðgengi að námi. Í ljósi þeirra tæknibreytinga sem eru að eiga sér stað er ljóst að margir munu þurfa á endurmenntun að halda. Mér þykir mjög mikilvægt að samfélagið hlúi að því og stuðli að því að fólk hafi jöfn tækifæri til náms burt séð frá efnahag eða stöðu þess í lífinu.