148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:15]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Umræðan um staðarval Landspítalans er orðin mjög tvískipt og er oft á tíðum mjög erfitt að greina á milli staðreynda og skoðana hjá helstu forsvarsmönnum beggja megin borðsins. Forsendubrestur í eldri athugunum hefur verið mikið til umræðu. Oft hefur verið nefnt að allar forsendur varðandi umferð í kringum spítalann í eldri athugunum séu brostnar, bæði með aukinni umferð og brottfalli eldra aðalskipulags Reykjavíkurborgar.

Undanfarin misseri hefur stefna Pírata hvað framtíðarstaðsetningu Landspítalans varðar verið á þá leið að fram fari óháð faglegt og opið mat á valkostum fyrir framtíðarstaðsetningu spítalans og verði engir kostir útilokaðir fyrir fram. Einnig er gert ráð fyrir að niðurstöður séu framreiddar þannig að glöggva megi sig á einstaka matsþáttum og að í kjölfar kynningar á þessu mati fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla eða vönduð skoðanakönnun þar sem þjóðin fái að velja á milli þeirra kosta sem best koma út úr matinu.

Nýframlögð þingsályktunartillaga hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur er einmitt á þessa sömu leið ef frá er talin hugmyndin um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún er ágætisbyrjun þrátt fyrir að ég myndi vilja sjá sérstaklega tekið fram að matsþættir væru aðgreindir svo hægt sé meta kostina á mismunandi máta eftir þeim forsendum sem taldar eru mikilvægar.

Forseti. Byggingar eru eitt og þjónusta er annað. Á meðan ekki er hægt að tryggja fjármagn í að manna vaktir á Landspítala, kaupa nauðsynleg lyf eða tryggja lágmarksöryggi sjúklinga, er til einskis að eyða peningum ríkisins í steypu og halda að það leysi vandann. Fangelsið á Hólmsheiði er dæmi um opinbera framkvæmd sem lítur vel út á blaði en hefur alla vega ekki enn nýst sem skyldi. Á meðan ekki er til fjármagn til að fjölga fangavörðum, svo ekki sé talað um starfsfólk sem gætir að geðheilbrigði og endurhæfingu fanga, er til lítils að byggja nýtt fangelsi fyrir 3 milljarða. Hið sama er upp á teningnum hvað Landspítalann varðar. Steypan sjálf læknar ekki fólk. Það gera læknar, sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar, kokkar, ræstitæknar og allt það mikilvæga starfsfólk sem vinnur á spítalanum.

En jú, klárum eina skýrslu enn og gerum það vel og faglega í þetta skiptið, kjósum svo um framhaldið. En gleymum því ekki að án fjármagns til reksturs mun sú skýrsla engu máli skipta fyrir heilsu fólks.