148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil taka aðeins undir orð hv. þm. Óla Björns Kárasonar, við erum búin að vera að draga lappirnar í þessu. Það er einfaldlega vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í dag. Síminn var seldur 2005 og það átti að nota þann pening til þess að byggja upp sjúkrahús, 67 milljarðar þar. Það var ekki gert. Við værum ekki í þessari aðstöðu að vera að rífast um hvort við ættum að vera að byggja þetta sjúkrahús við Hringbraut af því að við eigum að vera löngu búin að byggja það. Vandamálið er hins vegar núna að þegar við verðum búin að byggja þar, sem átti að vera löngu búið að klára, verður það jafnvel orðið úrelt stærðarlega séð. Það er vandamálið. Við þurfum þannig að huga að framtíðarhúsnæði fyrir spítalann eins fljótt og við mögulega getum.

Fyrir kosningar var haldinn fundur um framtíðarstaðsetninguna. Þar komu fram nokkur áhugaverð atriði sem eru gagnrýniverð varðandi þá ákvörðun um staðarvalið sem leiddi til þess að við erum að byggja við Landspítalann núna. Þar kom fram að í fyrstu staðarvalsgreiningunni sem hefði farið fram hefði verið sagt: Ef ekki í Fossvogi þá annars staðar. Þá stóð valið á milli Hringbrautar, Fossvogs og einhvers staðar annars staðar. Ef ekki í Fossvogi þá einhvers staðar annars staðar.

Eftir það var það borið upp: Nei, við verðum að skoða þetta aðeins betur, það verður að huga að nálægð við miðbæinn og nálægð við háskólann. Þá var gert nýtt staðarval með þeim forsendum viðbættum. Það finnst mér dálítið hæpið, að fara út í þá vegferð á þann hátt. Þeim efasemdum og þeirri gagnrýni var ekki mótmælt þannig að ég verð að líta svo á að það hafi verið réttmæt gagnrýni á það hvernig var staðið að staðarvalinu þar sem nú eru framkvæmdir. Eins og er virðist þetta vera sokkinn kostnaður, við verðum að klára það sem er verið að gera núna og fara strax í að skoða hvar við getum byggt spítala til framtíðarinnar því að við höfum ekki efni á því að gera þetta í önnur 20 ár. Það bara gengur ekki. Við köllum á óháða staðarvalsskoðun sem gengur ekki út frá einhverjum (Forseti hringir.) eftirábreyttum forsendum. Við verðum að gera þetta faglega.