148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[11:47]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Halda má því fram með nokkrum rökum að það sé eiginlega kraftaverk að til séu á Íslandi en frjálsir fjölmiðlar. Einkareknir miðlar sem margir hverjir eru reknir af miklum metnaði. Ég staðhæfi að fá ef nokkur fyrirtæki búi við erfiðari aðstæður en íslenskir fjölmiðlar, þurfi að standa í ótrúlega ósanngjarnri og óeðlilegri samkeppni og það eftir leikreglum sem við hér höfum samið.

Leikurinn er ójafn. Hann er eins ójafn og nokkur samkeppnisrekstur getur orðið.

Við horfum fram á skakka stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem hefur orðið til þess að einkareknir fjölmiðlar berjast flestir í bökkum. Ólíkt Ríkisútvarpinu þurfa sjálfstæðir fjölmiðlar að standa reikningsskil á því sem þeir gera. Á hverjum degi fella landsmenn sinn dóm sem lesendur, áhorfendur eða hlustendur. Ef þeim líkar illa við vinnubrögðin hætta þeir hreinlega að lesa eða kaupa viðkomandi dagblað eða tímarit, segja upp áskriftinni að sjónvarpsstöðinni eða hætta að hlusta á útvarpsstöðina. Ef þeir eru ósáttir við hvernig fréttir eða fréttaskýringar eru matreiddar gefast þeir upp á að heimsækja viðkomandi fjölmiðil á vefnum. Minnkandi vinsældir fjölmiðla munu koma niður á auglýsingatekjum.

Með öðrum orðum, einkareknir fjölmiðlar búa við aðhald almennings. Agavald sem nær hins vegar ekki til hins ríkisrekna fjölmiðils með sama hætti og til einkarekinna. Landsmenn þurfa að greiða útvarpsgjald. Um það sér innheimtumaður ríkissjóðs. Enginn hefur frelsi til að láta óánægju sína í ljós með því að segja upp áskriftinni, slíta viðskiptasambandinu.

Ég hef haldið því fram bæði í ræðu og riti að það sé eitt af hlutverkum stjórnmálamanna, löggjafans, að plægja jarðveginn fyrir fjölbreyttari flóru fjölmiðla. Ekkert tryggir betur fjölbreytni fjölmiðla en að réttar upplýsingar séu dregnar fram í dagsljósið og ólík sjónarmið fái að heyrast. Um mikilvægi þess að hér séu til sjálfstæðir, öflugir fjölmiðlar þarf ekkert að ræða. Frjálsir fjölmiðlar eru einn af mikilvægustu hornsteinum lýðræðisins, hins frjálsa samfélags.

Sá sem hér stendur hefur ekki verið mikill talsmaður þess að sértækar reglur gildi um fyrirtæki eða að ákveðnar atvinnugreinar búi við einhverjar sérreglur þegar kemur t.d. að skattalegum reglum. Ég vil hafa leikreglurnar skýrar og einfaldar, réttlátar og að þær tryggi jafnræði. En staðan á íslenskum fjölmiðlamarkaði kallar hins vegar á það að maður þurfi að beygja aðeins af leið. Ég hef lagt til að við afnemum virðisaukaskatt af áskriftum fjölmiðla. Ég tel að nauðsynlegt sé að við skoðum með hvaða hætti við innheimtum tryggingagjald þegar kemur að einkareknum fjölmiðlum. Og ég hef talið nauðsynlegt að Ríkisútvarpið verði dregið út af auglýsingamarkaði.

Fyrir utan hina ójöfnu samkeppni sem íslenskir einkareknir fjölmiðlar standa í gagnvart Ríkisútvarpinu eru þeir líka að berjast í bökkum þegar kemur að samkeppni við stórfyrirtæki erlendis, Google, Facebook o.s.frv. sem höggva og gera núna strandhögg á auglýsingamarkaðinn.

Ég vil því í ljósi þessa alls spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Er rétt að huga að skattalegu umhverfi fjölmiðla á Íslandi, fella niður virðisaukaskatt á áskriftum? Eru önnur skattaleg úrræði skynsamleg, t.d. að lækka tryggingagjald? Er hæstv. ráðherra fylgjandi því að taka Ríkisútvarpið af (Forseti hringir.) auglýsingamarkaði og jafna þannig leikinn? Sér hæstv. ráðherra einhverja aðra möguleika til að jafna stöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart erlendum stórfyrirtækjum sem sækja nú inn á auglýsingamarkaðinn?