148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[12:07]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Takk fyrir. Mér þykir full ástæða til að hafa varann á þegar ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks boðar endurskoðun á skattalegu umhverfi fjölmiðla og annað inngrip í samkeppnisumhverfið.

Ég ætla að vinda mér beint í að spyrja hæstv. ráðherra fjölmiðlamála: Mun ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tryggja að staða okkar ágæta ríkisfjölmiðils á auglýsingamarkaði kæfi ekki aðra, sérstaklega smærri fjölmiðla? Mun ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna tryggja að boðaðar skattabreytingar hygli ekki fyrst og fremst stærri fjölmiðlum, jafnvel þeim sem eru á áskriftarmarkaði, fjölmiðlum með fjársterka eigendur sem eru kannski orðnir þreyttir á gegndarlausum taprekstri þrátt fyrir ótvíræðan ávinning í þágu sérhagsmuna? Mun ríkisstjórnin koma í veg fyrir að einstaka fjölmiðlar komist áfram upp með að vera í samkeppnisrekstri árum saman án þess að standa skil á sköttum og gjöldum og síðan sé hægt að komast til leyniáhrifa í þessum miðlum með yfirtöku á skuldunum þvert á markmið fjölmiðlalaga? Mun hæstv. ríkisstjórn fara í sína boðuðu vegferð með það að markmiði að tryggja það? Er það raunverulegt markmið boðaðra breytinga að gæta hagsmuna allra á fjölmiðlamarkaði og reyna að tryggja þannig nauðsynlega fjölbreytni og almannahagsmuni?

Það verður fylgst mjög vel með því í hvaða vegferð verður farið. Við munum gera það, m.a. við í Viðreisn, með öllum tækum ráðum, og tryggja að í þessar breytingar og þessa vegferð verði farið með almannahagsmuni í huga. (ÞKG: Heyr, heyr.)