148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[12:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir hlý orð síðasta ræðumanns í garð Ríkisútvarpsins sem er hvort tveggja í senn kjölfesta í menningarumfjöllun og í fréttaflutningi hér á landi. Hugmyndir eru um að draga úr tekjum með því að leggja af útvarpsgjald, eða hvað það er sem fólk nefnir, en það verður að mæta því tekjutapi. Eins og fram kemur í skýrslunni sanna dæmin að það er ekki alltaf gert. Það þarf að vera mjög vakandi fyrir því að við veikjum ekki RÚV með því að breyta umhverfinu.

Hvað varðar hugmyndir um lækkun virðisaukaskatts hnaut ég um það í skýrslu um rekstrarumhverfi fjölmiðla að þær tillögur snúa aðallega að tvennu; annars vegar að VOD-leigum fjarskiptafélaganna og hins vegar að prentmiðlum í áskrift, sem eru ekki sérstaklega margir hér á landi. Ég fæ kannski að heyra í hv. frummælanda um hvort þetta eigi að vera það sértækar ráðstafanir að þær nái annars vegar til vídeóleigu og hins vegar til Morgunblaðsins.

Hér hefur verið rætt um rekstrarumhverfi fjölmiðla. En það er fleira en fjárhagslegar áhyggjur sem gerir fjölmiðlum lífið leitt hér á landi, sérstaklega um þessar mundir. Þar getur hið opinbera litið nokkuð í eigin barm þegar kemur að því að svara upplýsingabeiðnum. Þá er ég ekki bara að tala um ráðuneytin sem draga oft lappirnar fram úr öllu hófi við að svara sjálfsögðum, einföldum beiðnum fjölmiðla, heldur líka um okkur á Alþingi sem virðumst eiga mjög erfitt með að gefa greinargóð svör við þeim fyrirspurnum sem að okkur er beint um rekstur þingsins.

Og svo verð ég að nefna það sem enginn hefur nefnt, og kemur það nokkuð á óvart, sem er lögbannið á Stundina. Við erum í þeirri stöðu að fulltrúi framkvæmdarvaldsins (Forseti hringir.) setti fyrir 100 dögum lögbann á umfjöllun um hagsmunatengsl æðstu valdhafa. Frú forseti. Ég hef meiri áhyggjur af 100 daga hömlum á tjáningarfrelsi en einhverri virðisaukaskattsprósentu.

(Forseti (BHar): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörkin.)