148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[12:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli. Frjáls, óháð og öflug fjölmiðlun er auðvitað undirstaða lýðræðissamfélags og þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að við stöndum vel að því rekstrarumhverfi sem þeim er búið. Ég tek hins vegar undir áhyggjur hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson um vilja þeirra flokka sem að núverandi ríkisstjórn standa til að stuðla að raunverulegu frjálsu samkeppnisumhverfi, alla vega hefur hugkvæmni þeirra í að reisa ýmsar samkeppnishindranir í gegnum árin verið ótrúleg.

En við eigum kannski að horfa á meginefni máls. Ástæðan fyrir skakkri samkeppnisstöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði er inngrip ríkisins í þennan markað, gríðarlega mikill stuðningur við einn tiltekinn fjölmiðil, Ríkisútvarpið. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr gæðum á því efni sem þar er framleitt eða mikilvægi þess í neinu samhengi, ég tek undir orð sem hér hafa verið höfð um að þaðan kemur mikið gæðaefni. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort aðkoma ríkisins að því að skaffa íslenskt hágæða dagskrárefni geti frekar verið í gegnum samkeppnissjóði heldur en að reka fjölmiðil. Það er miklu heilbrigðara að styðja alla fjölmiðla í landinu til þess að framleiða íslenskt efni, af því að við viljum bæði tryggja framboð íslensks efnis og vernda tunguna okkar, en þá ættu allir fjölmiðlar að sitja við sama borð um aðgang að fjármagni til framleiðslu á slíku efni, ekki einungis einn í krafti ríkisstuðnings.

Hins vegar er að finna í tillögum fjölmiðlanefndar ýmislegt áhugavert, t.d. að taka RÚV af auglýsingamarkaði ef halda eigi áfram núverandi fyrirkomulagi, sem ég styð. Það skiptir gríðarlega miklu máli að þetta sé heilbrigt, almennt samkeppnisumhverfi þar sem allir sitja við sama borð. Vandamálið er ekki að ekki sé eftirspurn eftir efninu, vandamálið er að ríkið skekkir samkeppnisstöðuna á þessum markaði og það útskýrir rekstrarvanda frjálsra fjölmiðla.