148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[12:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum kærlega fyrir mjög gagnlegar umræður sem ég held að sýni nákvæmlega hvernig við öll skiljum mikilvægi frjálsra og öflugra fjölmiðla og hvaða hlutverki þeir gegna í lýðræðissamfélagi. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að nú vil ég hefjast handa við að móta fjölmiðlastefnu og fara í þær aðgerðir sem við getum gert vegna þess að staða margra einkarekinna fjölmiðla er mjög bágborin. Fyrst vil ég byrja á því að útfæra tillögu sem snýr að því að lækka virðisaukaskattinn og óska eftir því að nú þegar verði farið í samræmda álagningu á fjölmiðla þannig að hann verði í öllum tilvikum í neðra þrepi eða skoða útfærslur, skoða hver kostnaðurinn er o.s.frv.

Ég vil taka fram, vegna þess að það hefur komið fram hér hjá nokkrum þingmönnum, að að sjálfsögðu verður gætt að jafnræði meðal fjölmiðla í landinu þegar við erum að fara í þessa stefnumótun. Allt annað er útilokað og ég kalla eftir mjög góðri samvinnu þingmanna, að við séum ekki að setja fram hlutina þannig að þeir séu til þess fallnir að búa til tortryggni. Öll sú vinna sem við munum fara í verður gerð á opinn og gagnsæjan hátt. Það er alveg ljóst að til þess að ná sátt um þetta þurfa leikreglurnar að vera skýrar og almennar og aðstaða þessara fjölmiðla jöfn.

Varðandi stöðu RÚV er ljóst að hún er einstök. Hvergi annars staðar hefur ríkisfjölmiðill jafn sterka stöðu á auglýsingamarkaði. En ef menn ætla að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði þarf að huga að mótvægisaðgerðum. Við viljum að sjálfsögðu halda í mjög öflugt ríkisútvarp.

Að lokum tek ég undir þá tillögu sem kom fram hjá málshefjanda þar sem hann nefndi að við ættum að hafa sérstaka umræðu um skýrslu nefndar um stöðu einkarekinna fjölmiðla og ég fagna því. Ég tel að það eigi að vera löng og umfangsmikil umræða og ég tel að við ættum að hafa hana sem allra fyrst. Ég vil taka fram að skýrslan barst í morgun og ég vildi óska þess að þið hefðuð haft lengri tíma til að kynna ykkur hana en mér fannst mjög brýnt að birta hana strax (Forseti hringir.) og gefa þingmönnum tækifæri á að kynna sér hana stuttu fyrir umræðuna en ég boða aðra umræðu hvað þetta varðar.