148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

norrænt samstarf 2017.

92. mál
[12:47]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt, norrænn samstarfsvettvangur er mjög mikilvægur. Þarna eigum við sameiginlega hagsmuni, þarna höfum við krafta. Við erum alltaf sterkari saman. Það er rétt að Ísland er afskaplega lítið í stóra samhenginu þannig að þetta er eitthvað sem við þurfum virkilega að horfa til og nýta sem best, þ.e. norrænt samstarf.

Mig langar til að upplýsa þingheim og þingmanninn um það að í gærmorgun var haldið málþing í Stokkhólmi af hálfu Norðurlandaráðs um tækniþróun. Þar var komið víða við, bæði tækifæri og ógnanir, og hvernig við getum nýtt þróunina en jafnframt eins og hv. þingmaður sagði að tækniþróunin er gríðarlega hröð. Stjórnmálamenn eru náttúrlega fólk úr öllum áttum og mistæknivætt. Þar af leiðandi er mjög mikilvægt að við stjórnmálamenn höfum a.m.k. vit á því að fá aðstoð frá þeim sem hafa besta þekkingu á hverjum tíma og getu til þess að upplýsa okkur og leiða mikilvæg verkefni. Bætt upplýsingaöryggi er klárlega eitt af því.

Ég þakka þingmanninum enn og aftur fyrir mjög góða ábendingu. Við í Íslandsdeildinni munum taka hana til skoðunar og finna út hvernig við getum nýtt hana í einhvers konar verkefni, komið henni í einhvern farveg og skoðað betur. Takk kærlega fyrir.