148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

ÖSE-þingið 2017.

87. mál
[12:59]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta. Að vísu hefði mátt koma fram eitthvað um fölsku fréttirnar, sem er alltaf áhugavert að ræða um. En allt í lagi, ég skil það sé vont að rekja fundi sem maður var ekki á.

Það er eitt sem ég saknaði í þessari skýrslu, fjallað er mjög takmarkað um deilunnar í Úkraínu. Ég hef aðeins kynnt mér störf SMM, sem er sérstök aðgerð um að fylgjast með hernaði á umdeildu svæðunum í Austur-Úkraínu. Ég vildi gjarnan vita hvort eitthvað hefði komið fyrir í umræðu ÖSE-þingsins varðandi SMM-verkefnið, hversu vel það gengur. Ég veit að skotárásir og sprengingar á svæðinu hafa aukist töluvert mikið, sérstaklega í nóvember og desember á síðasta ári, á miðað við hvernig það var fyrr á árinu. Það er eitt af stóru málunum sem ÖSE stendur frammi fyrir núna. Í því ljósi er yfirferðin um þetta mál og átökin í Úkraínu lítil í skýrslunni og í rauninni mætti vera töluvert meira fjallað um það þar. Það væri gott að heyra eitthvað um þau og ekki síst um hvort rætt hafi verið hjá nefndinni hvers vegna enginn frá Íslandi er þátttakandi í þessu verkefni, SMM. Nú eru öll önnur ÖSE-ríki nema Ísland með einhverja fulltrúa eða einhverja starfandi í verkefninu í Úkraínu. Það er til skammar fyrir okkur.