148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

ÖSE-þingið 2017.

87. mál
[13:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað viðkemur Alþingi þá tel ég hreinlega best að óska eftir því að forsætisnefnd láti gera úttekt á þessu og fari yfir þetta, þ.e. hvað snýr að þingmönnum og Alþingi. Ef ég hugsa málið til baka þá man ég eftir því að ríkislögreglustjóri var óþreytandi að minna á mikilvægi þess að menn gættu öryggis, minna á að bæta þyrfti öryggi hjá ráðherrum, hvort sem það voru símar eða tölvur, hann var með ákveðnar leiðbeiningar varðandi það. Þetta snýr nú kannski meira að okkur sjálfum, að forgangsraða og segja að þetta sé stórt, mikilvægt og alvarlegt mál. En það er alltaf sama gamla sagan, við verðum að setja peninga í þetta. Það kostar að sjálfsögðu að hafa búnaðinn í lagi, vera með nýjustu tækni og slíkt. Ég held að þetta séu kannski tvö stærstu vandamálin, þ.e. að viðurkenna og átta sig á hættunni og bregðast við henni með því að leggja til fjármuni. Ég held að þarna þurfi að taka af skarið, það hefur margoft verið bent á þetta.