148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

Vestnorræna ráðið 2017.

85. mál
[14:00]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að koma hingað upp og ræða málefni Vestnorræna ráðsins undir umræðu um skýrsluna en vil byrja á að þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir góða yfirferð yfir skýrsluna. Ég sit í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins og gegndi þar formennsku á síðasta kjörtímabili og var reyndar líka í forsæti í forsætisnefnd sem þá féll í hlut Íslands að sinna.

Mig langar að hnykkja á hversu gríðarlega mikilvæg málefni norðurslóða eru Vestnorræna ráðinu og hversu stórt skref það var núna á síðasta ári þegar Vestnorræna ráðið fékk áheyrnaraðild að Norðurslóðaráðinu. Það ber nú kannski ekki að þakka þáverandi sitjandi Íslandsdeild heldur þeim sem voru á undan okkur og sóttu um áheyrnaraðildina og unnu ötullega að því að fá hana samþykkta. Mig langar að byrja á að nefna Unni Brá Konráðsdóttur, fyrrverandi forseta Alþingis og fyrrverandi formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, sem vann ötullega að þessu. Jafnframt áttu þá sæti í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Páll Valur Björnsson, Páll Jóhann Pálsson og Þorsteinn Sæmundsson. Að ógleymdum fráfarandi framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, Ingu Dóru Markussen, sem hefur unnið ötult starf við að fá áheyrnaraðild okkar samþykkta og marka þá stefnu hvernig við skulum vinna með hana. Henni til aðstoðar var líka Vilborg Ása Guðjónsdóttir.

Það er sem sagt gríðarlega stórt mál að fá samþykkta þessa áheyrnaraðild. Maður finnur fyrir því þegar maður fer út á vettvang og ræðir þessi mál að Evrópusambandið til að mynda hefur verið að sækjast eftir áheyrnaraðild svo árum skiptir og er ósátt við að hafa ekki fengið hana enn þá samþykkta.

Eins og komið hefur verið inn á er markmið Vestnorræna ráðsins að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda og vernda auðlindir og menningararfleifð okkar og stuðla að samvinnu ríkisstjórnanna. Við komum almennt saman í Vestnorræna ráðinu tvisvar á ári, á þemaráðstefnu í janúar og ársfundi í ágúst eða byrjun september. Eins og fram hefur komið í máli þeirra hv. þingmanna sem tóku til máls á undan mér var haldin þemaráðstefna í Færeyjum fyrir um ári síðan. Það var mjög áhugavert að tala þar um jafnréttismál en sérstaklega út frá körlum og stöðu þeirra í nútímasamfélagi. Það var virkilega áhugavert að hlusta á sérfræðing frá Jafnréttisstofu, Tryggva Hallgrímsson, fara yfir stöðuna hér heima. Við höfum kannski verið með fyrstu löndum til að beina sérstaklega sjónum að karlmönnum þegar kemur að jafnréttisumræðunni. Það er augljóst, og við þekkjum það öll í þessum sal, hversu framarlega Ísland er í umræðu um jafnréttismál og hversu miklum árangri við höfum náð, þó að við teljum árangurinn ekki fullnægjandi, langt í frá. En þarna höfum við augljóslega eitthvað fram að færa, bæði í vestnorrænu samstarfi og í alþjóðasamstarfi yfir höfuð.

Ég ætla líka að fá að nefna ungmennaráðið sem var mjög áhugavert að funda með. Það var gaman að heyra sjónarmið þeirra og skoðanir og sjá hversu nálægt þau lágu hvert öðru, hvort sem þau koma frá Grænlandi, Færeyjum eða Íslandi. Eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom inn á áðan var mikil ánægja með störf ungmennaráðsins og okkur fannst þetta áhugaverðar hugmyndir. En því miður hefur okkur ekki tekist að finna farveg fyrir ungmennaráðið inn í framtíðina. Það helgast kannski fyrst og fremst af fjármunum og því að við höfum ákveðið að helga okkur núna veru okkar sem áheyrnaraðili að norðurskautsmálum. En ég hnykki á að ég held að það sé mikilvægt að halda utan um ungmennastarfið inn í framtíðina og reyna að finna leiðir til þess.

Mig langar líka að minnast á fund sem ég fór á sem fulltrúi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Brussel í júní síðastliðnum þar sem við ræddum góðkunningja eins og selaveiðar og selaafurðir og grindhvalaveiðar sem við eigum mjög oft umræður um á vettvangi Evrópusambandsins. Við ræddum um rannsóknir og þróunarmál og ég vakti máls á því og lagði áherslu á að við þyrftum að tryggja í auknum mæli að vestnorrænir háskólar og rannsóknarstofnanir fengju aðkomu að rannsóknarverkefnum um norðurslóðir. Evrópusambandið rekur auðvitað mjög mikla rannsóknar- og þróunaráætlun þar sem eru gríðarlegir fjármunir í spilunum. Við Íslendingar höfum haft aðgengi að þeim verkefnum. Þau eiga reyndar til að verða fullstór og stundum erfið fyrir minni aðila, stofnanir og háskóla að koma að. Ég held að mikilvægt sé að horfa til þess að búa til einhvers konar þekkingarklasa um þessi mál og bað Evrópusambandið að hafa það í huga. Ég held reyndar að við þingmenn Íslands eigum að hafa í huga þegar við ræðum við Evrópusambandið um rannsóknaráætlanir að hnykkja á aðkomu okkar, möguleikum og tækifærum, og þá ekki síður tækifærum Grænlendinga og Færeyinga þegar kemur að málefnum tengdum hafinu og norðurslóðum.

Mig langar líka að minnast sérstaklega á ársfund okkar sem var einkar ánægjulegur og haldinn var eins og fram hefur komið, hér í þessum sal, í fyrsta skiptið um mánaðamótin ágúst/september. Ég held að sá ársfundur hafi gengið mjög vel. Fyrsti dagskrárliðurinn á þeim ársfundi var þegar utanríkisráðherrar þjóðanna þriggja komu saman í samtal við okkur um vestnorrænt samstarf, norðurslóðamál, umhverfismál og sjávarútvegsmál. Það var auðheyranlegt að þeir höfðu mikinn áhuga á að þróa þetta samstarf áfram og telja það mikilvægt.

Af þessu tilefni skrifuðu ráðherrarnir undir samstarfssamning sem byggir í rauninni á ályktun Vestnorræna ráðsins. Í samningnum kemur fram að ráðherrarnir munu hittast árlega til að ræða sameiginleg áhersluefni og sérstakur vinnuhópur verður stofnaður til að starfa að aukinni samvinnu og fríverslun milli landanna.

Það kom því verulega á óvart þegar Danir ákváðu að þarna hefðu Grænlendingar og Færeyingar í raun farið út fyrir sitt valdsvið í utanríkismálum og það dæmir í raun þennan samning ómerkan. Ég held að þetta sé mikið umhugsunarefni fyrir okkur. Þarna var í rauninni ekki verið að gera neitt annað en að kannski ramma inn það sem við höfum verið að vinna að í vestnorrænu samstarfi. Ég veit að alla vega í Færeyjum var mikil reiði með þessa aðgerð dönsku ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki heyrt jafn mikið af umræðunni í Grænlandi en geri ráð fyrir að við í Íslandsdeildinni heyrum eitthvað meira af því núna á næstu fundum okkar með Vestnorræna ráðinu. Ég held að það sé ástæða fyrir okkur til að hafa þetta í huga. Við Íslendingar munum ekki beita okkur neitt frekar, enda eigum við líka í góðu samstarfi við Dani. En við höfum oft á vettvangi bæði Norðurlandamála og Vestnorræna ráðsins reynt að styðja og styrkja okkur ágætu félaga í Færeyjum og Grænlandi.

Að lokum langar mig að koma inn á tillögu sem er til umræðu hjá okkur á aukaaðalfundi Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins núna á Grænlandi í næstu viku sem lýtur að því hvernig við ætlum að nálgast hlutverk okkar sem áheyrnaraðili í Norðurslóðaráðinu. Það er tillaga um rannsókn á áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum. Þarna er í raun verið að vísa í það sem margir þekkja sem íslenska módelið. Við höfum stundað rannsóknir á vímuefna- og áfengisneyslu ungmenna í alllangan tíma og hér eiga rannsóknaraðilar mjög góð gögn. Ég veit að íslensk sveitarfélög hafa notað þau mjög mikið í sínu forvarnastarfi. Þarna fer saman annars vegar mikil þekking á högum og lífi ungs fólks og hins vegar er hægt að bera það saman við forvarnaaðgerðir sem viðkomandi sveitarfélög eða samfélög hafa farið í.

Ég vona innilega að þetta verði samþykkt sem okkar áhersluefni og við getum farið með það inn í þann vinnuhóp sem við erum í sem áheyrnaraðili að Norðurslóðaráðinu og það verði samþykkt þar. Þá myndi Ísland leiða það verkefni í þeim ágæta vinnuhópi. Þarna held ég líka að sé tækifæri fyrir Íslendinga. Það er oft sagt á alþjóðavettvangi: Það skiptir ekki máli hversu stór við erum, það skiptir máli hvað við höfum fram að færa. Þarna höfum við mjög áhugaverða reynslu og þekkingu íslenskra fræðimanna á því hvernig hægt er að ná árangri á þessum mikilvæga málaflokki. Ég vona innilega að við munum nota okkur það og félagar okkar á Grænlandi og Færeyjum samþykki að styðja við þetta verkefni.

Þá held ég að ég láti máli mínu lokið enda tími minn að renna út og segi að það hefur verið einkar ánægjulegt að starfa í Vestnorræna ráðinu og í rauninni meira spennandi en ég gerði kannski ráð fyrir í upphafi og ég vænti góðs samstarfs við nýja Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.