148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2017.

84. mál
[14:28]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir skýrsluna. Hún nær auðvitað yfir mjög yfirgripsmikið efni og þau viðfangsefni sem nefndin fjallar um og skipta Ísland miklu máli. Mig langar aðeins til að tæpa á starfi nefndarinnar og umræðunum sem varða Brexit því að það er nú mjög ofarlega á baugi. Mig langar til að biðja þingmanninn ef hann getur að dýpka örlítið, eigum við að segja, skýrsluna, eða hans upplifun af því hvernig Brexit-umræðan snertir störf sameiginlegu nefndarinnar og hver tilfinningin sé, eftir því sem hann fær best greint eftir samtöl og fundarhöld með kollegum okkar í nefndinni frá öðrum löndum, að þau mál muni stefna eða séu að stefna. Eins hvort það hafi orðið umræður á þeim vettvangi sem hafa verið í samhljómi við það sem íslensk stjórnvöld tala gjarnan um, að í Brexit felist tækifæri, og hvaða tækifæri þá önnur lönd, aðilar að EES-samningnum, sjái helst og hvort þau séu með einhverjum hætti hliðstæð þeim sem íslensk stjórnvöld virðast telja að felist í Brexit.