148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2017.

84. mál
[14:33]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel að það sé erfitt að gera nána og djúpa grein fyrir þessu viðamikla máli en ég þakka hv. þingmanni fyrir viðleitnina. Ég vil auðvitað ítreka, þar sem þingmaðurinn notaði orðið neyðarástand, að menn hefðu ekki lýst yfir neyðarástandi hjá sér, að ég tel alls ekki að hér sé um neitt slíkt að ræða fyrir Íslands hönd. Auðvitað er það skylda íslenskra stjórnvalda að fylgjast mjög vel með þessu og búa þannig um hnúta að samskipti Íslands og Bretlands verði eins mikil og náin og unnt er eftir Brexit.

Það sem ég myndi vilja biðja hv. þingmann um að hugsa aðeins með mér er hvort það kunni að vera þannig með samskipti Íslendinga við önnur ríki, þ.e. við Evrópusambandið, að umhyggja þeirra fyrir EES-samningnum eða áhersla sé kannski ekki nægilega mikil, svo ég orði það þannig, á EES-samstarfið og þróunina í Evrópu. Að vinnan við að gæta hagsmuna Íslands gagnvart Bretlandi og Brexit yfirskyggi hagsmuni sem við höfum þrátt fyrir allt og eru miklu meiri við Evrópusambandið og að halda góðum tengslum við öll hin ríkin sem eftir sem áður verða í miklum og nánum samskiptum við okkur og við við þau.