148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

dánaraðstoð.

91. mál
[14:56]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um dánaraðstoð. Auk mín standa að þingsályktunartillögunni hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson og Bergþór Ólason.

Þingsályktunartillagan hljóðar upp á það að fela heilbrigðisráðherra að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma í kringum dánaraðstoð þar sem hún er leyfð sem og tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar og hver reynslan hefur verið í þeim löndum.

Okkur þykir einnig ástæða til að skoðað verði sérstaklega hvernig umræðan er um þessi mál, ef hún er þá einhver, í þeim löndum sem ekki leyfa dánaraðstoð og þá tilgreinum við sérstaklega Norðurlöndin, Þýskaland og Kanada.

Einnig óskum við eftir að gerð verði skoðanakönnun á meðal heilbrigðisstarfsmanna um viðhorf þeirra til dánaraðstoðar, annars vegar hvort starfsmenn telji dánaraðstoð vera réttlætanlega í ákveðnum tilfellum og hins vegar hvort þeir væru tilbúnir að verða við slíkri ósk að uppfylltum skilyrðum og að því gefnu að það samræmdist íslenskum lögum.

Við óskum eftir því að umræddum upplýsingum verði skilað í formi skýrslu fyrir lok ágúst 2018.

Ég ætla að byrja á að taka skýrt fram að ástæða þess að ég legg fram þingsályktunartillöguna, og þessi góði hópur meðflutningsmanna, er alls ekki sú að krefja þingmenn um afstöðu þeirra til þeirrar gríðarlega stóru og mikilvægu siðferðisspurningar sem dánaraðstoð kann að vera eða hvort einhver vilji sé til að gera breytingu á löggjöfinni hér á landi. Tilgangurinn er fyrst og fremst að treysta grundvöll nauðsynlegrar umræðu um þetta viðkvæma mál. Ég hef nefnilega fulla trú á að umræðan um dánaraðstoð sé ekki að hlaupa frá okkur. Hún er víða í kringum okkur og hefur verið í íslensku samfélagi.

Þá ætla ég líka að geta þess að orðið dánaraðstoð er þýðing á gríska orðinu „euthanasia“, sem þýðir góður dauði eða að deyja með reisn. Um þetta hafa einnig verið notuð orðin líknardráp eða aðstoð við sjálfsvíg. Mér þykir orðið dánaraðstoð mun betur lýsandi á því sem við erum þarna að ræða um.

Ástæða er til að geta þess að Siðmennt gerði könnun um lífsskoðanir og trú Íslendinga árið 2015. Ein af þeim spurningum sem voru settar fram í þeirri könnun var hvort viðkomandi væri hlynntur eða andvígur því að einstaklingur gæti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi. 74,9% aðspurðra voru mjög eða frekar hlynnt því, 18% voru hvorki né, en 7,1% mjög eða frekar andvíg.

Einnig hafa verið gerðar rannsóknir meðal heilbrigðisstarfsfólks. Til að mynda var birt grein í Læknablaðinu árið 1997 þar sem í ljós kom að aðeins 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga töldu þá líknardráp réttlætanlegt, en það voru einungis 2% svarenda sem gátu hugsað sér að verða við slíkri ósk.

Árið 2010 var gerð sambærileg könnun. Þá var hlutfall lækna sem töldu slíkt geta verið réttlætanlegt 18% og 20% hjúkrunarfræðinga. En aðeins 3% vildu verða við slíkri ósk.

Ég veit að nýlega var gerð rannsókn og skrifað var um hana í fjölmiðlum. Því miður láðist mér að vera með nafn á viðkomandi rannsakanda, sem ég veit að fylgdi rannsókn sinni úr hlaði uppi í háskóla ekki alls fyrir löngu. Ég held að þar hafi sérstaklega verið talað um félagsfræðinga, ef ég man rétt, sem höfðu svarað þeirri rannsókn.

Ástæðan fyrir því að við flutningsmenn leggjum til að þetta sé ekki bara samantekt, eins og þekkist í löndunum í kringum okkur og hvernig til hefur tekist, heldur óskum líka eftir að könnun verði gerð meðal heilbrigðisstarfsmanna, er auðvitað sú að jafnvel þó að það kunni að vera breið sátt í samfélaginu um að gera breytingar á lagaramma, þá er ólíklegt að það hafi einhver áhrif eða skipti í raun einhverju máli ef heilbrigðisstarfsmenn sem myndu koma að slíku hafi ekki vilja til að taka slíkt að sér. Það er auðvitað stór spurning ef við hyggjumst í framhaldinu gera einhverja breytingu á lagarammanum.

Ég ítreka það að við erum fyrst og fremst að fara fram á að teknar séu saman upplýsingar um hvernig þetta hefur gengið í öðrum löndum. Við erum ekki að leggja það á þingmenn á þessum tímapunkti að taka einhverja afstöðu með eða á móti, alls ekki. En ég hef reyndar þá trú að það muni koma að því innan skamms, hvort sem þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt og svo lagafrumvarp í kjölfarið eða einhverjir aðrir koma upp með þetta mál, að við þurfum svolítið að fara að gera það upp við okkur hvort við teljum eðlilegt að horfa til breytinga á lögum.

Til að slík umræða geti verið vitræn og málefnaleg þá held ég að mikilvægt sé að góðar upplýsingar séu grundvöllur slíkrar umræðu. Þetta er stórt siðferðislegt spursmál og auðvitað að miklu leyti rekið áfram af tilfinningu sem er bara eðlilegt, þetta er þannig mál. En þá held ég líka að ágætt sé að skoða reynsluna.

Ástæða er til að geta þess að ég og fleiri flutningsmenn höfum hitt forsvarsmenn samtakanna Lífsvirðingar, en það eru ný samtök sem voru stofnuð fyrir stuttu eða nokkrum mánuðum. Þetta er félag um dánaraðstoð. Þau samtök hittu hér nokkra þingmenn og upplýstu okkur um stöðuna í Hollandi. Með þeim í för var hollenskur læknir sem hafði tekið þátt í þessu ferli í Hollandi og hefur fylgst vel með því hver reynslan af því er þar. Það er mat þeirra sem að þessum samtökum standa að, ef ég leyfi mér að nota orðin hollenska leiðin sé skynsamleg og þau afhentu okkur ýmsar upplýsingar um stöðuna í Hollandi.

Svisslendingar eru líka með lagaramma í kringum þessi mál. Hann er öðruvísi en sá hollenski og eftirlitið kannski öllu minna. Sum fylki í Bandaríkjunum hafa verið með aðstoð við sjálfsvíg og mismunandi lagarammi er í mismunandi fylkjum. Það eru því margar og mismunandi leiðir sem ríki hafa farið hvað þetta varðar. Þess vegna held ég að ágætt sé að við fáum samantekt á því hvert mat aðila er um hvernig til hefur tekist og hver lagaramminn er því að hann er vissulega mjög misjafn.

Ég held ég hafi þetta ekki lengra í bili. Ég sé að fólk hefur áhuga á að taka til máls um þetta ágæta mál og hlakka til málefnalegrar og góðrar umræðu um þetta annars viðkvæma mál.