148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

dánaraðstoð.

91. mál
[15:12]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég hef ekki upplýsingar um það hvort umræðan sé eitthvað mismunandi eftir löndum út frá því hvernig heilbrigðiskerfið er byggt upp. Mér finnst það mjög góð ábending og hvet velferðarnefnd, sem mun væntanlega fara yfir málið, að leggjast aðeins yfir það og spá hvort það sé eitthvað sem við mundum líka vilja fá greiningu á samhliða þessum upplýsingum. Ég held að það væri býsna vel til fundið.

Hv. þingmaður kemur hér aðeins inn á hlut sem er auðvitað áhyggjuefni þegar kemur að svona, hvort viðkomandi aðili sé með einhverjum hætti beittur þrýstingi. Mér er sagt að samkvæmt hollenska kerfinu þurfi tveir læknar að skrifa upp á að viðkomandi aðili sé það langt leiddur af sjúkdómi sínum að hann muni leiða til dauða og að viðkomandi aðili sé þjakaður og þjáður og læknar búnir að reyna allt sem í þeirra valdi stendur til að lina þær þjáningar; að það eigi að vera einu tilvikin sem opna á þennan möguleika.

Að sjálfsögðu er þetta eitthvað sem þyrfti að hafa í huga og fara vel yfir ef til þess kæmi að við gerðum hér einhverja breytingu á.