148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

dánaraðstoð.

91. mál
[15:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir flutningsræðu hennar um þingsályktunartillögu um dánaraðstoð. Mér finnst þetta svolítið flókið mál, ég ætla bara að segja það hér strax, enda sást það strax í andsvörum við ræðuna, sem voru þó á mjög yfirveguðum nótum, að það eru ofsalega margar hliðar á þessu máli. Þetta er viðkvæmt mál og að mörgu að hyggja.

Þess vegna langar mig að byrja á að segja mér finnst það þó alla vega leið til að hefja umræðuna að byrja á að safna saman upplýsingum. Þó svo að mér hugnist það vel veit ég ekki hvað mér mun síðar finnast þegar allar þessar upplýsingar eru komnar saman.

Ég sé alveg hvers vegna margir sjá það jákvæða varðandi það að fá dánaraðstoð. En ég sé líka alveg ofsalega margar hættur í því. Þær snúa fyrst og fremst að stöðu fatlaðs fólks og fólks með langvinna sjúkdóma, sem leiða jafnvel ekkert endilega til dauða á næstunni, í samspili við það samfélag sem við búum í við ef dánaraðstoð er í boði.

Til eru rannsóknir og skrif á netinu um boð um dánaraðstoð sem leitt hafa til þess að fatlað fólk hefur nýtt sér þá leið t.d. í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna. Það er ekki endilega vegna þess að fólkið er svo kvalið eða líður miklar þjáningar, heldur tengist það því samfélagi og þeim lífskjörum og aðgangi að þjónustu sem fólki býðst. Þarna getum verið komin með mjög hættulega blöndu, þ.e. ef við búum ekki við nógu gott öryggisnet fyrir þá sem eru fatlaðir og langveikir, að þetta geti verið leiðin fyrir þá út úr því.

Þess vegna vil ég taka undir það sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson sagði um hvort ekki ætti að taka saman og skoða hvort munur sé á notkun á dánaraðstoð eftir heilbrigðiskerfum. En ég held að ekki sé nóg að gera það bara eftir heilbrigðiskerfum, við verðum að gera það víðar. Við verðum að gera það út frá félagslegum kerfum, lífskjörum og aðgangi að þjónustu, því að þetta má heldur ekki verða spurning um úrræði sem tekjulágir einstaklingar nýta sér frekar en þeir tekjuhærri. Ég held að við séum öll alveg sammála um það í raun og veru. En þetta er bara eitt af því sem þarf að vera alveg tryggt og uppi á borðum.

Þess vegna vil ég leggja til við hv. velferðarnefnd, sem ég geri ráð fyrir að fái málið inn á sitt borð, að ef nefndin ákveður að halda áfram með málið verði það útvíkkað sem heilbrigðisráðherra er falið að gera þannig að hluti af þeim upplýsingum sem taka á saman sé líka reynsla fatlaðs fólks og langveikra. Þá er hægt að skoða reynsluna t.d. í Hollandi og fleiri löndum sérstaklega hvað þetta varðar, og eins í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna.

Svo vil ég líka taka undir að það er mikilvægt að fá fram sýn og afstöðu þeirra sem haldnir eru langvinnum sjúkdómum.

Þó að maður greinist með langvinnan sjúkdóm hafa ekki allir sömu lífssýn eða sömu skoðun, þannig að þetta er svolítið flókið. Einstaklingarnir eru jafn fjölbreyttir og þeir eru margir. En ég held að það sé mikilvægt að reyna samt einhvern veginn að nálgast þessa hópa því að ég held að það geti líka farið mikið eftir sjúkdómum hvernig fólk upplifir sig í samfélaginu.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi koma að í ræðu því að mér finnst mikilvægt að ef opna á á það að skoða þessi mál vöndum við alveg ofsalega vel til verka við að kalla fram upplýsingar.

Ég vil ítreka að ég hef áhyggjur af þessu máli hreinlega út frá jaðarsettri stöðu fatlaðs fólks og langveikra í samfélaginu eins og það er hér og nú. Að þessu viðbættu getur hún orðið enn þá verri. Þess vegna þarf að skoða þetta mál alveg sérstaklega.