148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

dánaraðstoð.

91. mál
[15:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem að þessu máli dálítið út frá upplýsingasöfnunaráráttu okkar í Pírötum en það er ekki nema sjálfsagt að safna saman upplýsingum um þetta mál sem er að öllu öðru leyti gríðarlega viðkvæmt, þ.e. dánaraðstoð. Það hefur verið farið mjög vel yfir það í ræðum að hvaða atriðum þarf að huga í framhaldinu. Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson og hv. þm. — nú þarf ég að leita hérna svo ég muni nú allt nafnið, Ólafur Þór Gunnarsson, einn af Gunnarssonunum hérna, sem eru ansi margir, og mörg — komu einmitt inn á mjög áhugaverð atriði og viss sjónarmið sem stangast dálítið á, mögulega. Það er annars vegar það sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson sagði að væri líknaraðstoð og hins vegar frá öðrum sjónarhóli séð gæti það líka verið dánaraðstoð. Þetta er mjög flókið.

Segjum sem svo að dæmi sé um sjúkling sem neitar meðferð, þá eru mörkin á milli þessara tveggja sjónarhorna, hvort verið sé að veita líknaraðstoð eða dánaraðstoð, mjög þunn, þau sjónarhorn eru nánast þau sömu. Bara út frá því og þeim reynslusögum sem maður hefur heyrt af væri ekki óeðlilegt að til væru einhverjar skýrar reglur hvað það varðar.

Samantekt á upplýsingum, að bera saman öll þessi sjónarhorn, er eitthvað sem er mjög mikilvægt að gera, held ég. Þetta er gríðarlega viðkvæmt mál. Hvaða orð maður notar skiptir kannski ekki öllu máli um þetta, líknaraðstoð eða dánaraðstoð, en þau gera það samt af því að orð hafa áhrif. Ef einn notar orðið dánaraðstoð um þetta ferli þá getur það haft afleiðingar, á meðan annar, og það snýr að sama máli, notar orðið líknaraðstoð. Það er mjög erfitt að segja til um hvor hefur í rauninni rétt fyrir sér. Í staðinn fyrir að tala ekki um það þá er betra að tala um það og hafa það skýrt þegar við lendum í þeim aðstæðum hvað gera skal. Þaðan er ég að koma sem meðflutningsmaður að þessari þingsályktunartillögu.

Ég hlakka til að eiga þessa umræðu á næstu árum, örugglega, því að þetta er það viðkvæmt mál. Því væri örugglega gott að byrja á öruggustu sviðunum, þar sem t.d. var talað hérna um krabbameinsmeðferðir o.s.frv., þar sem vafinn er nánast enginn. Við verðum að fikra okkur áfram hvað þessi mál varðar ef upplýsingarnar sem við fáum benda til þess að það sé góð hugmynd.