148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

dánaraðstoð.

91. mál
[15:46]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum kærlega fyrir þátttökuna og umræðu um þetta viðkvæma mál.

Í þessari umræðu hafa komið upp ýmsar vangaveltur og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson fór einmitt yfir það mat ef um t.d. alzheimersjúkling væri að ræða t.d., hvort hann sé fær um að segja vilja sinn og allt þetta. Þessar spurningar hafa auðvitað komið upp í öllum þeim löndum sem hafa farið í gegnum þessa umræðu. Það er einmitt þess vegna sem ég held að sé mikilvægt að fara þessa leið. Köllum eftir upplýsingum. Ég vil líka þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni sem fór ágætlega yfir hollensku leiðina, ef ég leyfi mér að kalla þetta það. En við höfum bæði fengið kynningu á henni og kynnt okkur þau mál.

Ég vil þó nefna, því að þetta er auðvitað svo stórt og mikið mál, að við höfum okkar gögn frá aðilum sem hafa komið hingað til okkar með þann vilja að láta löggjöfina breytast. Ég bæði kynnt mér þau gögn og lesið en svo hef ég líka lesið greinar eftir lækna í Læknablaðinu og víðar, greinar eftir siðfræðinga og annað. Þá finnst mér stundum eins og upplýsingar og gögn séu jafnvel dregin í efa. Þess vegna held ég að sé svo mikilvægt að við felum ráðherra þetta þannig að við séum með opinber gögn sem hafa komið frá opinberum aðilum í þessum löndum. Ég veit ekki hvernig þær upplýsingar munu líta út eða hvað við munum lesa út úr þeim.

Ég get sagt það fyrir mitt leyti að ég hef verið nokkuð hlynnt því að fara þá leið að skoða breytingu á löggjöfinni, en ég segi líka að ég ætla að hafa þann rétt að geta skipt um skoðun þegar þessar upplýsingar koma fram. Þetta er þannig mál að ég held að við þurfum að fara mjög vandlega yfir það.

Það litla sem ég hef skoðað í þessu þá hefur mér hugnast hollenska leiðin nokkuð vel og fundist eins og þar væru þau búin að taka umræðu um helstu þætti og ramma þá niður í frekar ákveðna leið. Þau sögðu okkur t.d. frá því að nú væri umræðan hjá þeim hvort það ætti að leyfa dánaraðstoð á börnum. Það fór alveg fyrir hjartað á mér. Ég sagði: Guð minn góður, hvert erum við eiginlega farin?

Auðvitað koma upp svona spurningar, siðferðilegar spurningar leiða okkur alltaf áfram í eitthvað annað.

Ég vil þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég vil líka þakka fyrir ábendingarnar sem komu hérna fram hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur og Ólafi Þór Gunnarssyni varðandi umsagnaraðila og hvað það er nákvæmlega sem velferðarnefnd ætti að fara yfir.

Við þekkjum það í ákveðnum gögnum sem við höfum fengið að t.d. í Bandaríkjunum eru mismunandi reglur eftir ríkjum. Maður hefur séð það í bíómyndum og maður veit að það er satt að í einhverjum tilfellum er gefinn poki með einhverjum töflum sem fólk getur þá tekið þegar það vill láta þetta verða að veruleika. Það er t.d. aðferð sem hræðir mig mjög. Hvernig vitum við hvort viðkomandi aðili sé undir einhverjum þrýstingi eða hvort það sé nákvæmlega sá þjáði sem fái á endanum þessar töflur?

Ég held að þetta sé þannig mál að það þurfi að fara býsna vel yfir það og skoða út frá öllum hliðum. Ég þakka fyrir þessa yfirveguðu og góðu umræðu. Ég vil jafnframt þakka kærlega meðflutningsmönnum mínum á þessari tillögu. Mér finnst mjög mikilvægt að við erum úr flestum flokkum þingsins. Alveg eins og komið hefur fram í umræðunni þá er þetta ekki pólitískt mál, þaðan af síður flokkspólitískt mál. Þetta eru bara miklar og stórar siðferðislegar spurningar sem við stöndum frammi fyrir. Og kannski áður en við förum að svara þeim spurningum þá viðum við að okkur þessum gögnum.

Ég óska hv. velferðarnefnd velfarnaðar í þessum störfum og vona að okkur auðnist að fá fram upplýsingar fyrr en síðar sem geti leitt af sér málefnalegt og gott samtal. En ég tek líka heils hugar undir það að þetta er ekki mál sem mun fara í gegn á stuttum tíma. Þetta mun taka tíma. Ég óska eftir því að umræðan í þingsal verði yfirveguð eins og hún hefur verið hér í dag og ég vona jafnframt líka að það spretti upp aftur umræða í samfélaginu, en hún verði líka á þessum yfirveguðu nótum. Skoðum kosti sem ég held að séu augljóslega við þetta, en það eru augljóslega líka margir ókostir og flækjustigið mikið. Þá þakka ég þessa umræðu.