148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

siðareglur ráðherra.

[13:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýlegt svar hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn minni um hvernig framfylgja skuli ákvæðum siðareglna um reglulega og skipulega upplýsingagjöf er mjög áhugavert, en þar segir um mál önnur en ársskýrslur ráðherra samkvæmt lögum um opinber fjármál, með leyfi forseta:

„… fer það eftir málefninu sem um ræðir í hverju tilviki hvað telst nægjanlegt með hliðsjón af ákvæði siðareglna um reglulega og skipulagða upplýsingagjöf.“

Í siðareglum ráðherra er sérstaklega nefnt að hægt sé að leita ráðgjafar hjá forsætisráðuneytinu. Það þýðir væntanlega að forsætisráðuneytið hafi einhver almenn viðmið sér til halds og trausts þegar veita á slíka ráðgjöf. Ég get ekki dregið aðra ályktun en að forsætisráðuneytið hafi ekki veitt neina ráðgjöf né eigi nein almenn viðmið vegna þessara mála, því að annars hefði verið fjallað um þá ráðgjöf eða þau viðmið í svari forsætisráðherra við fyrirspurn minni.

Það virðist því hverjum ráðherra í sjálfsvald sett að túlka og fara eftir siðareglum ráðherra, jafnvel þegar þær reglur virðast svo augljóslega vera brotnar þá koma engar ráðleggingar frá forsætisráðherra um málið.

Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er, vegna þess að ég get ekki séð hvaða hlutverki siðareglur ráðherra gegna við núverandi kringumstæður. Ég get ekki séð hvernig á að fylgja þeim eða hverjar afleiðingar af því að fylgja þeim ekki eru. Ég get bara séð möguleikana á geðþóttaákvörðunum og hentistefnu í hverju máli fyrir sig. Ég sé bara svigrúm til eftiráskýringa og spyr því: Eru siðareglur ráðherra bara til skrauts?