148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

siðareglur ráðherra.

[13:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í siðareglum ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal sýna samstarfsvilja séu störf hans tekin til skoðunar af hálfu Alþingis eða eftirlitsstofnana þess og eins þegar þingmenn óska eftir upplýsingum á grundvelli laga um þingsköp.“

Í síðustu viku mætti fjármálaráðherra í atkvæðaskýringu og mælti gegn því að hann yrði beðinn um skýrslu. Skýrslubeiðnin var sögð vanhugsuð og beinast gegn röngum ráðherra.

Ég gef þessum samstarfsvilja ekki háa einkunn.

Svo er það vandi dómsmálaráðherra vegna málsins um skipan dómara, hvernig sá ráðherra hefur logið um atkvæðagreiðslu heils þingflokks, hvernig sá ráðherra hefur aftur og aftur komið fram í fjölmiðlum með villandi skilaboð, þvælu og ásakanir um að mál séu öðrum að kenna og allir aðrir skilji málið bara rangt. Mér finnst augljóst að siðareglur ráðherra hafi verið brotnar og að forsætisráðherra eigi að leiðbeina ráðherrum á einhvern hátt í svona málum. Þannig að ég spyr aftur, þar sem þetta er augljóslega ekkert skraut miðað við það sem mér skildist hérna áðan: Eru siðareglur ráðherra bara kökuskraut? Kökuskraut af því að þrátt fyrir augljóst brot eru bara skipaðar nefndir, málin þvæld, tafin og gert lítið úr þeim með óljósum samanburði við fyrri dæmi, sem voru þvæld og tafin á sama hátt til þess að forðast ábyrgð (Forseti hringir.) og leiða af sér áframhaldandi afskipta- og ábyrgðarleysi. Með því að axla ekki ábyrgð núna eru (Forseti hringir.)ráðherrar að búa til fordæmi fyrir framtíðina, framtíð þar sem þeir munu heldur ekki kunna að axla ábyrgð, framtíð þar sem áfram verða stofnaðar nefndir sem gera síðan ekki neitt, þrátt fyrir siðareglur, þrátt fyrir (Forseti hringir.) fögur fyrirheit um ábyrgð og traust. (Forseti hringir.) Þannig að þrátt fyrir augljós brot … (Forseti hringir.)forsætisráðherra?(Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti biður þingmenn að gæta að tímamörkum.)