148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

staðsetning nýs Landspítala með tilliti til samgangna.

[13:50]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir áhugaverða fyrirspurn þótt hún sé reyndar ekki á mínu verksviði sem fagráðherra. Þetta er mál sem hefur verið til umfjöllunar lengi í samfélaginu, verið ofan í skotgröfum. Fjórar síðustu ríkisstjórnir hafa allar unnið að því að endurbæta aðstöðuna við Hringbraut, byggja sjúkrahótel og meðferðarkjarna sem á að hefja vinnu við nú þegar og hefur verið lengi í undirbúningi.

Á sama tíma hafa margir haft efasemdir um að skynsamlegasta staðsetning svokallaðs þjóðarsjúkrahúss, nýs sjúkrahúss þar sem allt væri á einum stað, sé við Hringbraut. Því erum ég og Framsóknarflokkurinn sammála og höfum verið lengi. Þess vegna höfum við talað fyrir því, og hv. þingmaður vitnaði til orða minna, að tímanlega þyrfti að hefja undirbúning að nýju sjúkrahúsi.

Fyrir nokkrum árum var talið að sjúkrahús þyldu 30–40 ár á sama stað áður en byggja þyrfti ný. Í dag er þróunin orðin slík að víða erlendis eru þau endurnýjuð á 20–25 ára fresti. Þess vegna er skynsamlegt að fara að hefja undirbúning að nýju sjúkrahúsi á nýjum stað tímanlega. Við höfum rætt það í okkar hópi og ég mun taka það upp við heilbrigðisráðherra hvort ekki sé skynsamlegt að fara að huga að því á þessu kjörtímabili hvar slík uppbygging ætti að verða.

Það er algerlega í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins síðustu árin en við höfum ekki ein ráðið því hvort menn ætli að hætta við allar þær framkvæmdir. Og ég minni aftur á að við vorum líka í ríkisstjórn undir forsæti annars formanns og annars forsætisráðherra þar sem tekin var ákvörðun um að byggja upp sjúkrahótel og meðferðarkjarna (Gripið fram í: Nei.) og halda áfram endurbótunum á Hringbraut, (Gripið fram í: Rugl.) þó svo að menn væru á sama tíma að tala um aðra uppbyggingu. Við Framsóknarmenn (Forseti hringir.) vorum stundum í vandræðum með að útskýra hvað við værum að meina þegar bæði átti að byggja upp á Hringbraut og á sama tíma byggja nýjan spítala á öðrum stað, (Gripið fram í: Rugl.) en það er stefna Framsóknarflokksins og það er stefna mín. Ég mun standa við hana. Og það eykur traust á stjórnmálum, hv. þingmaður.