148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

einstaklingar með þroskaskerðingu og geðræn einkenni.

[13:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og óska honum til hamingju með jómfrúrræðuna.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um geðheilbrigðisþjónustu við einstaklinga með þroskaskerðingu. Það er alveg ljóst að hér fer afar viðkvæmur hópur sem er mikilvægt að beina sjónum sérstaklega að. Eftir því sem ég man best er ekki um það fjallað í geðheilbrigðisáætlun að koma til móts við þennan hóp sérstaklega. Ég er þó ekki alveg viss um hvernig það er — mér sýnist hv. þingmaður gefa mér merki um að það sé rétt hjá mér og dreg af því þá ályktun að hv. þingmaður hafi töluverða þekkingu í málaflokknum. En ég tek þessa ábendingu alvarlega. Það er raunar þannig að geðheilbrigðisþjónusta almennt við þá aðila sem hafa tilhneigingu til að vera jaðarsettir hvort sem er af ýmsum öðrum ástæðum er sérstakt áhyggjuefni. Ég nefni til að mynda geðheilbrigðisþjónustu við fanga sem hefur verið, liggur mér við að segja, sérstakur skortur á að sinna með betri og skýrari hætti. En ég tek þessa ábendingu hv. þingmanns alvarlega.

Eins og kom fram í fyrra svari mínu hyggst ég gefa þinginu sérstaka skýrslu í febrúar um þessi mál. Ég vænti þess og auðvitað væri best ef hv. þingmaður væri hér enn þá þegar þar að kemur, en ég treysti því a.m.k. að hann fylgist mjög kirfilega með umræðunni í útsendingu þingsins. Þá mun ég taka þennan punkt sérstaklega inn í þá skýrslugjöf til Alþingis og halda þessari góðu ábendingu til haga.