148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

göngudeild SÁÁ á Akureyri.

[14:00]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Forseti. Nú berast fréttir af því að SÁÁ hyggist loka göngudeild sinni á Akureyri. Hún hefur verið starfrækt frá 1993 eða í 25 ár og hefur sinnt svæði alveg frá Blönduósi og austur á firði. Þar hafa verið tekin um 350 viðtöl á ári, um 1.200 manns farið í hópmeðferðir og hún hefur sinnt forvörnum og öðrum þáttum á svæðinu.

Mig langaði að koma með fyrirspurn til ráðherra sem snýr að þessu, út af þeirri umræðu sem við eigum í dag varðandi ávanabindandi lyf, sterk lyf og slíka hluti, hvort það sé einhver sýn á framtíðina í þessum málum og hvort hægt sé að efla þessa þjónustu á landsbyggðinni. Þetta er í raun eina þjónustuúrræðið sem er til í landinu varðandi þessi málefni, göngudeild SÁÁ. Annars er öll starfsemin að flytjast á suðvesturhornið. Það er verið að loka núna í Staðarfelli og flytja alla starfsemina upp á Kjalarnes í Vík. Göngudeildin á Akureyri hefur m.a. sinnt fólki eftir að það kemur frá Vogi eða Vík, þá í heimabyggð, og veitt því þjónustu á svæðinu og eftirfylgni o.fl., þriggja eða tólf mánaða prógrömm.

Mér finnst þetta gríðarlega mikilvæg starfsemi. Akureyrarbær hefur undanfarin ár, frá um 2010 þegar líka átti að loka göngudeild SÁÁ á Akureyri, sett 5–6 milljónir inn í þennan rekstur sem kostar um 17 milljónir á ári. Í fjárlögum fær SÁÁ frá Sjúkratryggingum 914 milljónir. Ég vil að landsbyggðin fái aðeins að njóta þessa. Þarna erum við að tala um u.þ.b. 1,3% af því fjármagni sem samtökin fá á fjárlögum í dag. (Forseti hringir.) Ég myndi gjarnan vilja sjá þetta dreifast aðeins, þó að það væri bara að þetta rúma prósent færi líka út á landsbyggðina.