148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

göngudeild SÁÁ á Akureyri.

[14:04]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Þetta er eiginlega punktur sem mér finnst mjög mikilvægur varðandi þá þjónustusamninga sem ríkið gerir, hvort sem það eru ohf., samtök úti í bæ eða aðrar stofnanir sem við deilum út fjármagni til í gegnum fjárlög, við förum í gegnum þessa vinnu í fjárlögum, að ríkið skilgreini betur hvaða þjónustu eigi að veita fyrir fjármagnið sem veitt er í fjárlögum. Ég hefði viljað sjá það. Fyrir nokkrum árum, þremur eða fjórum, var þetta í fjárlögum. Til dæmis að 10 milljónir ættu að fara í þennan rekstur göngudeildar. Það var tekið fram. Við þurfum oft að skilgreina betur. Maður hugsar oft um þetta í fjárlaganefnd. Við höfum verið að tala um kynjaða fjárlagagerð og slíka hluti. Það gæti oft verið mjög áhugavert að skoða líka landsbyggðartengda fjárlagagerð. Það gæti verið mjög áhugavert. En ég vil þakka fyrir svörin, mér finnst þetta mjög mikilvægt mál og við þurfum (Forseti hringir.) að skoða betur hvort við náum ekki einhverri góðri niðurstöðu í þessu.