148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

félagsleg undirboð og svik á vinnumarkaði.

[14:42]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þessa góðu umræðu vegna þess að ég trúi því að þegar við tölum saman og leggjum hlutina á borðið, förum ofan í saumana á þeim, þá er alltaf meiri von um að við náum að finna lausnir og bæta samfélagið. Þetta er innlegg til þess sem er mjög gott.

Hv. þingmaður kom inn á marga hluti, nefndi sérstaklega byggingariðnaðinn og ferðaþjónustuna, nefndi brothætta hópa sem eru erlendir starfsmenn og ungt fólk. Einnig kom þingmaðurinn á umræðu innan Norðurlandaráðs sem mér fannst mjög athyglisverð. Ég á þar sæti ásamt hv. þingmanni og fleirum sem sitja hér í salnum. Mig langar til að undirstrika að Norðurlandaráð er mjög mikilvægur vettvangur fyrir okkur til að beita okkur vegna þess að styrkurinn liggur í samtakamættinum. Það að þetta málefni sé þar uppi á borðum og vilji sé þar til þess að vinna samkvæmt sameiginlegri stefnu styrkir vinnumarkaðinn hér gríðarlega. Við þurfum því að horfa í þá átt og ræða hvernig við getum beitt okkur áfram innan Norðurlandaráðs í þessum efnum sem og öðrum.

Hæstv. ráðherra kom einnig inn á marga punkta í sínu máli. Ég fagna því eins og fleiri að frumvörpin séu á leiðinni og það væri náttúrlega gott að heyra frá hæstv. ráðherra hvort möguleiki sé á að þau komi eitthvað fyrr en áætlað er nú þegar.

Eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kom inn á þá er náttúrlega erfiðara að leynast í einföldu umhverfi og einnig þar sem upplýsingaflæðið er betra og meira og samtalið meira. Með því að tengja betur saman stofnanir og tryggja upplýsingaflæði getum við náð betri árangri og komið upp um þá einstaklinga sem hafa svo sannarlega einbeittan brotavilja í að fara fram hjá lögunum. (Forseti hringir.)

Ég sé að tími minn er að verða á þrotum. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra varðandi Primera Air málið, (Forseti hringir.) hvort lögin taki t.d. yfir svona skráningar (Forseti hringir.) og hvernig menn geta farið þar fram hjá. Einnig kennitöluflakkið og keðjuábyrgðir sem minnst er á í stjórnarsáttmála, hvað (Forseti hringir.) er að gerast í þeim efnum?

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn á að virða tímamörk. Þetta voru næstum því 30 sekúndur fram yfir, það er metið núna.)