148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

félagsleg undirboð og svik á vinnumarkaði.

[14:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri þakka málshefjanda fyrir þarfa umræðu. Breyttur vinnumarkaður og aðstæður í efnahagslífinu hafa orðið til þess að hlutfall erlends starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði hefur hækkað, ekki síður en erlendra fyrirtækja sem senda starfsfólk hingað tímabundið til að veita þjónustu.

Á síðasta ári voru rúmlega 24 þús. erlendir starfsmenn hér á vinnumarkaði og hafa aldrei verið fleiri. Gjarnan hefur verið rætt um ferðaþjónustuna og byggingarfyrirtækin en þetta á miklu víðar við, hvort heldur er í ræstingum eða í litlum fyrirtækjum.

Það er auðvitað mikilvægt, eins og ítrekað hefur komið fram, að félagsleg undirboð fái ekki þrifist. Það gera stjórnvöld ekki ein, heldur þurfa þau og aðilar vinnumarkaðarins að leggja saman krafta sína.

Að mínu viti er eitt af því sem þarf að gera að setja lög um keðjuábyrgð. Það er ein leið til að tryggja fólki laun sem því ber og það á bæði við um innlend og erlend fyrirtæki, eins og Vinstri græn hafa reyndar lagt áherslu á í gegnum tíðina.

Eitt og annað er gert, við megum ekki gleyma því, þó að alltaf megi úr bæta. Vinnumálastofnun hefur sett á fót upplýsingavef fyrir erlendar þjónustuveitendur þannig að þeir geti á einum stað fengið nauðsynlegar upplýsingar áður en þeir senda starfsmenn sína tímabundið hingað til lands að veita þjónustu. Í farvatninu er líka nýr fræðsluvefur í samstarfi við atvinnurekendur þar sem m.a. má finna gátlista í því skyni að atvinnurekendur vandi valið þegar kemur að undirverktökum. Og ekki síður að þeir geti metið hættuna á duldu vinnumansali og öðrum vinnumarkaðsbrotum, en ég vil taka undir með hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur hvað varðar vinnumansalsmálið áðan.

Vinnueftirlitið hefur líka verið með fræðslu og leiðbeiningar er varða einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, sem þarf að fylgja vel eftir, eins og dæmin sýna og við þurfum að gera enn betur í því.

Ég vil beina því til ráðherra, af að ég held að það sé hluti af því að gera umhverfið betra, að gera átak í því að meta menntun erlends starfsfólks þannig að mannauðurinn nýtist sem best. Það væri hægt að taka upp á samráðsvettvangi ráðherranefndar um jafnréttismál eins og gert hefur verið varðandi jafnlaunavottun og kynferðislega og kynbundna áreitni.