148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

farþegaflutningar og farmflutningar á landi.

111. mál
[15:21]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 28/2017, um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.

Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, voru samþykkt á Alþingi síðastliðið vor, þann 16. maí 2017, og tóku gildi 1. júní síðastliðinn eftir mjög góða og ítarlega umfjöllun í þinginu. Eftir gildistöku laganna hafa komið fram ábendingar annars vegar frá Samgöngustofu og hins vegar frá lögreglu um að tiltekin atriði þyrfti að kveða skýrar á um í lögunum. Tilgangur þessa frumvarps er að bregðast við þeim athugasemdum.

1. og 2. gr. frumvarpsins varða skyldu til að hafa tiltekin leyfi. Samkvæmt lögum nr. 28/2017, sem kveða á um farþegaflutninga í atvinnuskyni, er rekstur bifreiða til farþegaflutninga í atvinnuskyni leyfisskyldur og varðar sektum að aka farþegum gegn gjaldi án tilskilins leyfis. Við framkvæmd laganna eftir gildistöku þeirra hefur komið í ljós að í ljósi meginreglunnar um skýrleika refsiheimilda er nauðsynlegt að skerpa á leyfisskyldum í þeim ákvæðum sem fela í sér leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða annars vegar og ferðaþjónustuleyfa hins vegar. Til að mæta þessu markmiði er í 1. og 2. gr. frumvarps þessa lögð til breyting á orðalagi 9. og 10. gr. laganna.

Í 9. gr. laganna eins og þau eru í dag segir m.a. að Samgöngustofa veiti leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða og í 10. gr. segir að Samgöngustofu sé heimilt að veita sérstakt leyfi til farþegaflutninga í ferðaþjónustu. Skýrt er af greinargerð með lögunum og 4. og 5. tölulið 30. gr. um sektir, að tilgangur þessara ákvæða var að leggja leyfisskyldu á þá sem stunda farþegaflutninga af því tagi sem ákvæðin taka til. Það hefur hins vegar sýnt sig við eftirlit lögreglu að orðalag þessara greina getur valdið misskilningi um hvort aðilum sem hyggjast stunda farþegaflutninga í skilningi ofangreindra ákvæða sé í raun skylt að hafa undir höndum leyfi samkvæmt 9. og 10. gr. laganna þar sem ákvæðið má skilja sem heimildarákvæði fyrir Samgöngustofu án þess að í því felist einhverjar kvaðir á rekstraraðila sem þeir geta hlotið sektir fyrir að uppfylla ekki.

3. gr. frumvarpsins varðar gjaldtökuheimild vegna ferðaþjónustuleyfis. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 28/2017 ber aðilum að greiða gjald fyrir leyfi og önnur vottorð og umsýslu. Er í ákvæðinu að finna upptalningu á þeim leyfum sem greiða ber gjöld fyrir. Ákvæði 10. gr. laga um ferðaþjónustuleyfi er líkt og áður sagði nýmæli. Ákvæðinu var bætt inn í frumvarp til laganna með breytingartillögu við þinglega meðferð frumvarpsins á síðasta þingi. Rétt er að nýta tækifærið nú og skerpa á því í 1. mgr. 13. gr. að greiða beri gjald til Samgöngustofu fyrir ferðaþjónustuleyfi samkvæmt 10. gr. Ljóst er að til stóð að gera öll leyfi samkvæmt lögunum gjaldskyld og ætlunin var ekki að undanskilja ferðaþjónustuleyfi. Því þykir rétt að bæta úr því og er gert ráð fyrir því í 3. gr. frumvarpsins.

Rétt er að taka fram að frá gildistökutíma laganna og fram til þessa dags hefur Samgöngustofa nýtt almenna gjaldtökuheimild í 6. tölulið 1. mgr. 13. gr. til gjaldtöku en þar er heimiluð gjaldtaka fyrir annars konar vottorð en talin eru upp í ákvæðinu og umsýslu.

Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið máli mínu um efnisatriði frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.