148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[15:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Til þess að hafa það alveg á hreinu frá byrjun þá þolir núverandi heilbrigðiskerfi ekki bið á uppbyggingu. Það er búið að þurfa að bíða eftir uppbyggingu í 20 ár. Það er því að kenna að ekki hefur verið farið í uppbyggingu eftir þeim áætlunum sem höfðu verið gerðar heldur þeim sífellt seinkað og gerðar nýjar og nýjar. Nú stöndum við uppi með að vera með allt í niðurníðslu, myglu og ónýt hús o.s.frv. Við skulum hafa alveg á hreinu að núverandi heilbrigðiskerfi þolir ekki bið á uppbyggingu.

Hins vegar er allt sem segir að núverandi áætlun muni ekki skila þeim árangri sem vonast var til þegar hún var gerð. Þegar uppbyggingu lýkur verður sjúkrahúsið nær umsvifalaust úrelt stærðarlega séð. Við þurfum strax að fara að huga að stækkun. Og það er ekki miklu meira pláss á Hringbraut.

Þessi þingsályktunartillaga er mjög tímabær, þó fyrr hefði verið: Að gera mjög faglega og óháða staðarvalsgreiningu. Það er í fullkomnu samræmi við stefnu Pírata. Við styðjum hana tvímælalaust. Það á ekki að þurfa að vera jafn flókið og hefur verið á undanförnum tveimur áratugum að sjá hver nauðsynin er á að hafa vel búið heilbrigðiskerfi, og ekki endilega bara á höfuðborgarsvæðinu heldur víðar um landið þar sem það léttir álaginu af heilbrigðisþjónustunni hérna, samgöngum og ýmsu öðru, varðandi heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn.

Ég hvet því fólk eindregið til að fara að huga að þessu strax. Það þýðir ekki endilega að það þurfi að fresta neinu sem þegar er í gangi því að eins og ég sagði áður þolir heilbrigðiskerfið ekki bið. En þeim mun fyrr sem við förum í nýjar greiningar og fáum ný álit, þeim mun minni peningur tapast, þeim mun minni sokkinn kostnaður verður við núverandi uppbyggingu. Það er lykilatriðið. Við erum eins og er að eyða peningum í eitthvað sem úreldist mjög hratt. Það er afleiðing þess að ekki hefur verið hugað að uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu á undanförnum tveimur áratugum þrátt fyrir að komið hafi álit eftir álit sem segja að það eigi að byggja þarna eða þarna. Til að byrja með var sagt, eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni, að ef ekki væri hægt að byggja annars staðar en í Fossvogi og við Hringbraut, þá ætti að það að vera í Fossvogi. Eftir það, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið, var beðið um nýja skýrslu með þeim breyttu forsendum að byggingin yrði að vera nálægt miðbænum og háskólanum. Nú eru fjarlægðirnar ekkert svo rosalega miklar hérna á Íslandi, það að keyra fimm mínútur frá Háskóla Íslands í Læknagarð eins og er núna eða keyra 15 mínútur upp í Grafarvog eða Elliðaárvog eða eitthvað svoleiðis munar engu í fjarlægð hvað það varðar.

Við stöndum frammi fyrir því vandamáli núna að við erum að moka fullt af peningum í uppbyggingu á heilbrigðiskerfi sem er nauðsynlegt en á sama tíma í kappi við úreldingu á nákvæmlega þeirri framkvæmd. Þannig að þeim mun fyrr sem við byrjum á þessu, því betra.