148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og ég sagði áðan styð ég þessa tillögu og geri enn, enda sýnast mér ekki margir andstæðingar hennar ætla að taka til máls í dag, þótt ég viti það ekki um einn hv. þingmann. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson fór aðeins yfir tilgátu sína um hverjum þessi tillaga væri hættuleg. Ég verð að segja að þótt ég sé ekki mjög trúaður á kerfi almennt, hvort sem það er ríki, sveitarfélög eða mannlegar stofnanir, þær eru náttúrlega brigðular eins og við öll, finnst mér tilgátan hv. þingmanns ekki standast. Hann nefndi tvennt sem ég tók eftir og annað var að tillagan væri hættuleg stjórnmálamönnum sem þori ekki að viðurkenna að þeir höfðu rangt fyrir sér.

Ég veit að margir stjórnmálamenn eiga ægilega bágt með að viðurkenna að þeir hafi nokkurn tíma haft rangt fyrir sér, eitthvað sem mér finnst skrýtið sjálfum en ég veit að gerist. Það sem mér finnst ekki alveg standast í þessu tilfelli er að á sama tíma talar hv. þingmaður um þetta séu endalokin á 20 ára þöggun. Ef það var þöggun á sínum tíma hefur það væntanlega verið á þeim tíma sem þeir stjórnmálamenn tóku ákvarðanir, á þeim tíma sem þeir hefðu getað myndað sér aðra skoðun. Mér finnst það því ekki alveg standast.

Hitt er að tillagan sé hættuleg embættismönnum sem hafi unnið að þessu áratugum saman. Ég geri fastlega ráð fyrir að embættismenn þurfi líka að fylgja tillögunni eftir, ég veit ekki hvað það er við núgildandi áform sem myndi halda fleiri embættismönnum í vinnu heldur en með byggingu nýs Landspítala á nýjum stað. Ég held miklu frekar að ótti fólks, alla vega margra, við tillöguna sé að hún muni tefja uppbyggingu við Hringbraut. Jafnvel ef (Forseti hringir.) það er ekki rétta niðurstaðan, ef maður lítur yfir gögnin, held ég að það sé einlægur ótti afskaplega margra í umræðunni.