148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir andsvarið. Já, hér var um ákveðið árabil notað sem eins konar réttlæting, í daglegu tali væri kannski talað um sölupunkt, að það myndi leiða af þessu staðarvali hagkvæmni í rekstri upp á 3 milljarða kr. á ári. Hér er fyrirtæki sem veltir tugum ef ekki hundruðum milljarða þannig að þetta er auðvitað innan allra skekkjumarka við áætlanir af þessu tagi. Ég leyfi mér bara að segja að ég tel ekki ástæðu til þess að gefa þessari fjárhæð of mikið vægi, líka í ljósi þess að sú umræða er þögnuð. Þessi tala hefur ekki heyrst núna um árabil.

Ég leyfi mér að ítreka það og árétta að mér finnst það mjög áberandi að ekkert er fjallað um það, svo við förum nú frá rekstri og yfir í stofnkostnað, og virðist vera algjört tabú, svo ég leyfi mér að nota það orð sem ég tel nú eiga sér þegnrétt í íslenskri tungu, herra forseti, að ræða um stofnkostnaðinn og hagkvæmni þess að byggja á nýjum stað.

Síðan vil ég leyfa mér að segja að fjármögnunin sem fullyrt er að sé fyrir hendi getur ekki verið bundin við staðarvalið, hún er náttúrlega um spítalann.

Loks vil ég leyfa mér að segja að mér þykir það í hæsta máta vandræðalegt fyrir stjórnvöld, sem ég leyfi mér að segja að þverskallist við þessum ábendingum, (Forseti hringir.) að þau standa frammi fyrir því að þetta nýja sjúkrahótel stendur núna opið fyrir veðri og vindum og liggur að sínu leyti (Forseti hringir.) undir skemmdum.