148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:12]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú ætla ég, með leyfi forseta, að lesa 3. mgr. greinargerðarinnar sem fylgir með þessari þingsályktunartillögu. Hefst nú lesturinn:

„Meginmarkmið þessarar tillögu er að gerð verði óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýja þjóðarsjúkrahúsið. Gera þarf faglega staðarvalsgreiningu til að sjá hvar hagkvæmast og best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús.“

Með þessum orðum er því haldið fram að þetta hafi ekki verið gert hingað til, að hingað til hafi ekki farið fram nein slík fagleg greining og ég leyfi mér bara að mótmæla því. (Gripið fram í: Hvar stendur það?) Það eru búnar að vera ítrekaðar skýrslugerðir. Það hafa verið ítrekaðar staðarvalsgreiningar. Ef þingmenn ætla alltaf að segja ef staðarvalsgreiningin er þeim ekki að skapi að þá hafi hún ekki verið fagleg, værum við endalaust að tala um öll mál með þeim hætti. Það þarf enginn þingmaður að halda því fram að þeir sem komu að greinargerðunum hingað til hafi (Forseti hringir.) ekki unnið með faglegum hætti. Ég mótmæli því.