148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Stundum er það þannig að hv. þingmenn hér í ræðustól kalla eftir tilteknu andsvari og þannig er það núna. Varðandi þetta með þöggunina sem hv. þingmaður kom inn á, eða það sem hann kallar þöggun: Ég kom reyndar inn á það í andsvari mínu við hann áðan að ég hef ekki orðið var við að nein þöggun sé í gangi á spítalanum. Ég hef ekki orðið var við neitt, hvorki af hálfu stjórnenda eða yfirvalda spítalans, í þá veru að starfsfólk megi ekki tjá sig um þetta mál. Enda sjáum við það út um allt samfélagið að menn tjá sig náttúrlega eins og þeim sýnist. Þannig er það sem betur fer.

Hv. þingmaður spurði mig reyndar áðan aðeins út í sjúklingana. Mig langar að spyrja hann á móti: Hefur hann engar áhyggjur af því að við tökum annan 10 ára hring í því (Forseti hringir.) að rúnta með sjúklinga á milli mismunandi staða Landspítalans meðan við erum að bíða eftir að þetta þing hætti að tala um þetta mál og haldi sig við þær ákvarðanir sem það hefur tekið?