148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Þingmaðurinn fór ágætlega yfir mætinguna í þingsal og hvar áhugi manna liggur. Ég ætla nú ekki að festa mig mikið í því. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað sjá hæstv. heilbrigðisráðherra í salnum við þessa umræðu, en auðvitað ber henni engin skylda til þess, ég tek það skýrt fram. Það hefði hins vegar boðið upp á skemmtilegri umræðu um málið ef ráðherrann hefði verið hér og rætt við okkur um málið. En það verður eflaust tími til þess því að nú fer tillagan til nefndar og fær þar væntanlega mjög góða og gagnlega umfjöllun.

Við erum að tala um gríðarlega stórt mál. Við erum að tala um gríðarlega mikla fjárfestingu, alveg sama hvar hún verður, þetta er mikil fjárfesting, miklir fjármunir. Það hefði verið áhugavert að heyra hina sjálfskipuðu gæslumenn ríkissjóðs taka þátt í umræðunni.