148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

tekjuskattur.

108. mál
[18:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þingmálið og fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hversu lengi barist hafi verið fyrir þessari tilteknu breytingu. Ef hv. þingmaður getur eitthvað farið út í söguna á bak við þetta. Það er ástæða fyrir því að ég spyr að þessu.

Frá því að ég tók sæti hér á Alþingi í fyrsta sinn 2013 hef ég heyrt alveg ótal sögur og fólk jafnvel sent manni upplýsingar um upphæðir og því um líkt. Mér hefur reynst, vissulega á þeim tíma og eiginlega alltaf, algerlega ómögulegt að skilja vandann sem blasir við fyrir framan mig. Ég hef blessunarlega aldrei þurft að nota þetta kerfi og þess vegna finn ég ekki fyrir því á eigin skinni og þarf að öðlast þekkingu í gegnum aðra. Eftir því sem ég hef prílað meira inn í þennan málaflokk, því betur sé ég hvað hann er óheyrilega flókinn og hvað búið er segja margt aftur og aftur. Maður er búinn að heyra um krónu á móti krónu skerðingu mánuðum saman og tengdi samt ekki við það hvað væri verið að tala um. Og hvað þá lausnir. Maður finnur vissulega ekki lausnir undir þessum kringumstæðum. Það er þess vegna sem ég er að spyrja.

Er þetta eitthvað sem hv. þingmaður eða aðrir hafa vitað af mjög lengi? Þá hversu lengi? Hefur verið stungið upp á þessu áður við þingmenn? Ég er að spyrja vegna þess að mig langar svo til þess að svona hugmyndir, sem koma frá fólkinu sem notar kerfið, fólki eins og hv. þingmanni, eða hefur notað það alla vega, eigi greiða leið hingað inn á þingið. Mér finnst ofboðslega gott að Flokkur fólksins sé hér á Alþingi til að koma fram með þessi mál. En þess á ekki að þurfa. Þetta á að vera straumlínulagaðra ferli við að koma svona einföldum breytingum á. Ég álít þetta sjálfsagðar breytingar, bara svo ég segi það. Og spyr þess vegna; Hver er aðdragandi þessa máls eða hversu gamalt er það? Hversu lengi hefur verið reynt að koma þessu að einhvers staðar?