148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni málefni hæstv. dómsmálaráðherra í framhaldi af opnum fundi hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun.

Í því sambandi er rétt að muna að ein af meginástæðum hrunsins sem hér varð árið 2008 er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis talin vera slök stjórnsýsla sem einkennist af geðþótta, valdasýki og frænd- og vinahygli. Hér höfum við dæmi um ráðherra sem hunsar hæfnisnefnd, fer ekki að ráðum sérfræðinga sinna, sem hún kallar raunar starfsmenn hæfnisnefndar, eins og þar sé um að ræða óviðkomandi hagsmunaaðila úti í bæ en ekki embættismenn sem starfa í almannaþágu.

Það er alvarlegt mál þegar ráðherra fær athugasemd eftirlitsaðila um störf sín. Það er verra þegar ráðherra fær á sig dóm um að hafa brotið lög í starfi sínu. Það er enn verra þegar dómsmálaráðherra fær á sig dóm um að hafa brotið lög. Og þegar dómsmálaráðherra fær dóm á sig um að hafa brotið lög við val á dómara er það alveg skelfilegt. Og þegar dómsmálaráðherra fær á sig dóm um að brjóta lög við að velja dómara fyrir nýtt dómstig er fokið í flest skjól — líka skálkaskjólin.