148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst geta þess í tilefni af ummælum í framhaldi af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun að mér finnst þær umræður sem þar áttu sér stað alls ekki gefa tilefni til þeirrar dramatísku yfirlýsingar sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson var með hér áðan. Um starfið í nefndinni vil ég að öðru leyti segja að núna eiga sér stað samtöl innan nefndarinnar um með hvaða hætti hún eigi og geti nálgast þetta mál. Eins og fram hefur komið er hér mál sem hefur farið fyrir dómstóla og verið reifað þar og komist að ákveðinni niðurstöðu. Jafnframt liggur fyrir að ákveðnir vinklar á því eru þess eðlis að umboðsmaður Alþingis hefur áhuga á að skoða þá og þá þarf að skoða afmörkun starfs nefndarinnar út frá því. Og bara svo það komi fram hafa átt sér stað samtöl innan nefndarinnar og munu á næstu dögum eiga sér stað samtöl um það hvernig nefndin geti nálgast málið. Annars vegar hefur nefndin ekki það hlutverk að endurskoða það sem dómstólar hafa fjallað um eða hins vegar fara yfir á svið umboðsmanns Alþingis. Menn þurfa að hafa það í huga.

Varðandi annað mál sem var reifað í þessari umræðu fyrr af hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson vil ég geta þess, vegna þess að ég er alveg örugglega einn af sökudólgunum í þessu máli, að ég gerði ítrekað og á ýmsum stigum athugasemdir við form skýrslubeiðni hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar og kom þeim athugasemdum á framfæri við forseta að ég átti satt að segja ekki von á að málið kæmi á dagskrá þingsins aftur fyrr en það væri búið að bregðast betur og frekar við þeim ágöllum sem ég taldi vera á málinu. Ég verð að játa að ég sá ekki dagskrá þingsins og þetta mál fyrr en örskömmu fyrir þingfund. (Forseti hringir.) Að einhverju leyti get ég tekið á mig sök fyrir að hafa ekki fylgst nægilega vel með eða átt samtöl við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fyrr en ella. (Forseti hringir.) En efnislegu athugasemdirnar við fyrirkomulag skýrslubeiðninnar standa hins vegar 100% af minni hálfu.