148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

um fundarstjórn.

[15:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessi orð og þessa brýningu hæstv. forseta að undirstrika sjálfstæði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það skiptir máli að þetta komi frá forseta þingsins sem er síður en svo áhrifalaus maður, miklu heldur hitt.

Mér finnst líka vænt um að heyra frá hæstv. forseta að það eigi að liðka fyrir eins og hægt er að sérstakar umræður komi sem fyrst á dagskrá. Ég hefði kannski líka viljað fá viðhorf hæstv. forseta til þess hvort hann telji rétt að ráðherrar geti beðið með sérstakar umræður þar til skýrslur eru komnar fram. Þá erum við á rangri leið, þá erum við á villigötum, ég tel einmitt að þingið og þingmenn verði að hafa tækifæri að ræða við ráðherra um stefnumótun í ýmsum mikilvægum málum, frjálslyndismálum eins og frelsi á leigubílamarkaði eða hvað það er hverju sinni. Þess vegna tel ég mikilvægt að óháð öllum skýrslum hafi þingmenn svigrúm til að eiga orðastað við ráðherra, hvort sem er í sérstökum umræðum eða í öðru.