148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:06]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir flutninginn á þessu frumvarpi og finnst margt athyglisvert í því. Ég lít á þetta frumvarp fyrst og fremst sem fyrsta skref eða tilraun til þess að mylja undan því kvótakerfi sem hefur verið við lýði síðustu þrjátíu og eitthvað ár og hugnast mér það illa, hef ég starfað lengi í þessari grein.

Þegar kvótakerfið var sett á á sínum tíma breyttist mjög mikið landslagið hjá þeim sem voru í útgerð og á árunum þar á undan og áratugina hafði útgerð á Íslandi verið meira og minna í fanginu á hinu opinbera með tilheyrandi gengisfellingum og vandræðum. Við vorum ekki heldur með mælingar á stofnstærð þorsks eins og í dag og má segja að fiskveiðistjórnin sé sjálfbær að því leytinu að vísindamenn leggja til kvóta eftir stofnstærðarmat og eins er kvótakerfið sjálfbært vegna þess að það er samansett eins og það er.

Að tala um að það hafi verið samþjöppun í greininni er rétt. En ég er með þá kenningu og stend fastur á henni að samþjöppunin í greininni sé að stærstum parti út af þessu neikvæða tali um hvað þetta sé vont kerfi. Ég er á þeirri skoðun að það sé pláss fyrir jafnt stóra sem litla í fiskveiðistjórnarkerfinu eins og það er í dag. Tala ég þar af reynslu sem lítill útgerðarmaður.

En mig langar að spyrja þingmanninn einnar spurningar í sambandið við uppboðsleiðina: Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því að það (Forseti hringir.) séu einmitt þeir sem peningana hafa sem eingöngu komast að þessum uppboðum, ekki þeir sem eru blankir?