148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:35]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gagnrýnir að í frumvarpinu séu ekki birtar útboðsreglur og útskýringar á því nákvæmlega að hve miklum hluta bjóða ætti út byggðatengdan kvóta. Hægt er að ná öllum pólitískum markmiðum með reglum fyrir útboð, alveg eins og við setjum reglur fyrir alls konar útboð. Þannig er það. Við bjóðum út leitarheimildir fyrir olíu til dæmis. Við setjum niður reglur fyrir útboð. En þó að við sem berum uppi þetta frumvarp höfum ekki útlistað nákvæmlega hvernig við ætlum að setja niður reglur fyrir útboðið þá finnst mér óhætt fyrir hv. þingmann að samþykkja frumvarpið. Við vitum ekki hversu mörg þúsund tonn verða sett til viðbótar á næsta fiskveiðiári. En samkvæmt öllum mælingum má gera ráð fyrir að þau verði nokkur þúsund og kannski 20 þúsund eða meira. Þegar við vitum það setjumst við niður og setjum okkur reglur fyrir útboðið.

Ég get sagt að ég er spennt fyrir því að sjá hvernig útboðið fer ef Færeyingar bjóða út þorskkvótann á Íslandsmiðum. Það væri gott viðmið fyrir okkur hér á landi til að átta okkur á hvers virði í raun auðlindin er. Hvað eru Færeyingar, útgerðarmenn í Færeyjum, tilbúnir til að bjóða í þorskkvóta á Íslandsmiðum? Það verður fróðlegt fyrir okkur. Auðvitað munum við líta til Færeyinga til þess að (Forseti hringir.) læra af þeim. Þeir eru líka með reglur fyrir sitt útboð.