148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þessi orðræða sem er vandinn, sem er að gera sjávarútveginum grikk. Að dreifa eða gefa verðmæti almennings fyrir slikk? Það er vitanlega ekki boðlegt, herra forseti, að þingmenn tali með þeim hætti. Við erum að tala um eina helstu atvinnugrein þjóðarinnar sem leggur tugi milljarða til nýsköpunar, í skattgreiðslur, til okkar, í velferðarkerfið. Svo koma menn hingað og tala, eins og hv. þingmaður, eins og það komi ekkert frá sjávarútveginum. (Gripið fram í.) Ég vil gæta hagsmuna Íslendinga. Ég vil gæta t.d. hagsmuna þeirra tuga eða hundruð einstaklinga og fyrirtækja sem eru í Suðvesturkjördæmi og vinna við sjávarútveg; búa til fiskvinnsluvélar, búa til hnífa eða guð má vita hvað, sem er afrakstur þess að við erum með góða atvinnugrein. Ef við værum með atvinnugrein sem gengi ekki vel væri ekkert af þessu til. Við verðum að átta okkur á því.

Ástæðan fyrir því að Íslendingar eru einna fremstir í sjávarútvegi í dag er að atvinnugreinin hefur unnið með frumkvöðlunum í þessu. Það er vegna þess að hún hefur getað gert það. Ef við ætlum sífellt að fara að höggva í og gera mönnum erfitt um vik er ekki gott. Það hefði verið leikur einn fyrir flutningsmenn frumvarpsins að leggja til færeysku leiðina varðandi þessa viðbót. Ég ætla ekki að spyrja þingmann, hún getur ekki komið upp í andsvar, en ég velti fyrir mér af hverju það er ekki gert. Hins vegar er bara lagt fram frumvarp sem er einhvers konar yfirlýsing, líklega, af hálfu flutningsmanna um að þetta sé svo og svo sniðugt án þess að rökstyðja það með nokkrum einasta hætti. Það eru bara einhverjar fyrirsagnir, slegið er upp einhverjum fyrirsögnum í meginmáli frumvarpsins án þess að reyna einu sinni að koma með einhverja alvörutilvísun.

Íslenskur sjávarútvegur er ekki algerlega fullkominn. En hann er frábær atvinnugrein. Í honum vinna þúsundir manna sem skila okkur þingmönnum og allri þjóðinni gríðarlega miklum verðmætum.