148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:45]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir andsvarið. Ég er svo innilega sammála henni varðandi umræðuna um landbúnað, þar sem margir sá hag sinn í að stilla upp andstæðum, þ.e. þeirra sem leyfa sér að tjá sig um breytingar á landbúnaði og hinna sem tala um að breytingar á íslenskum landbúnaði séu af hinu vonda. Þess vegna fagna ég þessari nálgun hv. þingmanns. Við eigum að ræða þetta. Um leið og við tölum upp íslenskan landbúnað eigum við að nýta tækifærið og sjá hvað kerfisbreytingar í landbúnaði geta gert fyrir bændur. Við vitum vel að bændur eru ekki best setta stéttin í samfélaginu. Þá hljótum við að fara að hugsa hvernig getum við gert betur.

Hér ræðum við mjólkurframleiðsluna. Það er einmitt hluti af því, það er ákveðin trygging að söfnunin er tryggð sama hvar maður er á landinu. Sama verð til bænda er tryggt með núverandi fyrirkomulagi og ekki er verið að ógna því með þessu.

Hins vegar er ég sannfærð um að með því að fjölga þeim sem geta framleitt úr mjólkinni, að fjölga sprotunum þar muni hagur bænda sjálfra styrkjast meðan það er ekki bara einn eða tveir sem eru stærstu, öruggustu kaupendurnir. Ég held að því fleiri sem koma að því að byggja upp íslenskan mjólkuriðnað þeim mun betra sé það fyrir íslenska bændur. Ég er þeirrar skoðunar. Hv. þingmaður er kannski annarrar skoðunar, en ég sé þarna ákveðið tækifæri fyrir íslenska bændur.