148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:49]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Við ræðum breytingar á undanþágum mjólkuriðnaðar frá samkeppnislögum. Ég spyr mig alltaf þegar þessi mál ber á góma: Hvernig í ósköpunum stendur á því að menn óttast samkeppni? Sumir flokkar hér á þingi hafa reyndar ekki verið neitt sérstaklega miklir talsmenn frjálsrar samkeppni á hinum ýmsu sviðum. Aðrir flokkar, þar á meðal a.m.k. einn í núverandi ríkisstjórnarmeirihluta, hafa talið sig vera boðbera frjálsrar samkeppni, boðbera frelsis. Þá spyr maður: Af hverju ekki á sviði landbúnaðar?

Ég held að það sé ágætt að skerpa á því strax í upphafi þessarar umræðu að það á ekki að drepa þessu máli á dreif með því að fara að tala um að þeir sem tali hér fyrir samkeppni á sviði landbúnaðar séu í sömu mund að mæla gegn stuðningi við landbúnað. Þetta eru bara tveir ólíkir hlutir. Við erum hér öll meira og minna sammála um að það er mjög mikilvægt að styðja ötullega við íslenskan landbúnað. Við gerum það með mjög miklum beinum stuðningi en líka óbeinum stuðningi í formi tollverndar. Raunar er það svo að við styðjum hvað mest, í það minnsta ríkja OECD, við landbúnað sem hlutfall af landsframleiðslu. Það eru fá ríki sem styðja jafn mikið við landbúnað og Ísland gerir. Um þetta er ekkert sérstaklega deilt. Við vitum að hér eru um margt erfiðar aðstæður til landbúnaðar og mörg sterk rök sem hníga að því að við, líkt og önnur ríki, eigum að styðja við þessa mikilvægu atvinnugrein.

Það breytir því hins vegar ekki að þegar við erum með atvinnugrein sem við styðjum einmitt mjög ríkulega, bæði í beinum stuðningi og óbeinum, með tollvernd, þá eigum við að sama skapi að gera mjög ríka kröfu til þess að almenningur njóti með einhverjum hætti góðs af. Það er það sem ég hef aldrei skilið, með þetta ágæta undanþáguákvæði mjólkuriðnaðar, sem var leitt hér í lög fyrir einum 14 árum, að undangenginni mjög skammri umræðu og í raun og veru alveg skammarlega litlum rökstuðningi af hálfu löggjafans á þeim tíma, hvers vegna þyrfti að grípa til slíkra aðgerða. Þegar við horfum á vægi landbúnaðarafurða, mjólkur og osta, t.d. bara í neysluvísitölu, er vægi þeirra meira en vægi bensíns eða olíu í þeirri sömu vísitölu. Ég spyr mig: Værum við tilbúin til að ræða hér umfangsmiklar undanþágur olíudreifingar eða sölu frá samkeppnislögum? Ég held í ljósi reynslunnar að svarið við því í þessum sal væri alveg örugglega: Nei, það kemur ekki til greina.

Við eigum að treysta á krafta samkeppninnar til þess að tryggja hagsmuni neytenda. Það er besta tækið sem við höfum til að tryggja að neytendur njóti sem mests ábata af hverri þeirri framleiðslu og þjónustu sem verið er að veita á hvaða sviði atvinnulífs sem er. Það er ekkert að óttast í þessu. Samkeppni tryggir okkur í senn sem hagkvæmast verð til neytenda, sem fjölbreyttast vöruúrval, sem besta þjónustu, sem mesta nýsköpun í viðkomandi atvinnugreinum. Það eru sannindi sem eru tekin gild alls staðar annars staðar, í öllum öðrum atvinnugreinum. Við treystum á krafta samkeppninnar til þess að tryggja framþróun atvinnugreinarinnar, gott vöruúrval, góða þjónustu, hagstætt verð fyrir neytendur. Þetta er einfaldasta og besta leiðin sem við höfum til að tryggja þetta.

Ég leyfi mér að spyrja í þessu samhengi: Hvar eru hagsmunir neytenda? Þegar við horfum á verðþróun á mjólkurvörum frá því að undanþáguákvæði þessi voru leidd í lög fyrir 14 árum þá hefur verð á mjólk og mjólkurafurðum nærri tvöfaldast í verði á sama tíma og vísitala neysluverðs án húsnæðis hefur hækkað um 80%. Það eru bara ansi fáar matvörur ef nokkrar sem ná því að hafa hækkað umfram þessa sömu vísitölu neysluverðs án húsnæðis á þessu sama tímabili. Til samanburðar held ég að hækkun á gosdrykkjum og söfum, í drykkjarvöruiðnaði, sé um 40–45% á þessu sama tímabili; nærri helmingur þeirrar verðþróunar sem orðið hefur á mjólk á sama tíma.

Þarna tel ég alveg augljóst að það er einfaldlega ekki nægur samkeppnisþrýstingur til að skila því sem við erum að leggja áherslu á í þessu samhengi, auknu hagræði í þessari atvinnugrein til neytenda. Það er, þegar öllu er á botninn hvolft, það sem skiptir höfuðmáli fyrir okkur. Auðvitað viljum við öflugan og kröftugan landbúnað. En við verðum líka að átta okkur á því að þegar við undanskiljum atvinnugrein sem þessa samkeppnislögum þá koma upp óvissuatriði, t.d. varðandi málarekstur Samkeppniseftirlitsins gegn Mjólkursamsölunni þar sem nú er meðal annars tekist á um það hvort bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu eigi við í tilfelli Mjólkursamsölunnar eða ekki. Það er enginn vafi á því að Mjólkursamsalan er algjörlega í markaðsráðandi stöðu, þó annað væri. Ég hygg að markaðshlutdeild Mjólkursamsölunnar og tengdra aðila sé einhvers staðar á bilinu 95–97%. Það er óumdeilt. Fyrirtækið er algjörlega í markaðsráðandi stöðu. Þetta er alltaf mjög erfið staða fyrir aðra framleiðendur að reyna að keppa við. Það gefur augaleið og ekki síst þegar við horfum á þá staðreynd að eigandi Mjólkursamsölunnar stýrir allri sölu á heildsölustigi á þessum markaði. Þarna er alveg augljóst að það verður að bæta úr.

Mér verður oft hugsað til samræðna gamalla atvinnurekenda sem sögðu: Þetta var allt miklu huggulegra á haftatímabilinu þegar það voru bara svona opinberar verðlagsnefndir. Það var nefnilega svo fjandi þægilegt að rökstyðja hækkunarþörfina, þurfti lítið annað að gera en að vísa til einhverrar vísitöluhækkunar, launahækkana; það var fjandakornið ekkert mjög erfitt að sannfæra viðkomandi nefnd um að þörf væri á því að hækka verð. Það er yfirleitt miklu erfiðara að sannfæra viðskiptavininn um þörfina á hækkuninni en opinbera nefnd. Þess vegna er samkeppnisaðhaldið, verðlagsaðhaldið, frá neytandanum eða öðrum viðskiptavinum svo mikilvægt í þessu samhengi. Við eigum ekkert að óttast það í tilfellum mjólkuriðnaðar frekar en annarra atvinnugreina.

Við eigum að tryggja greininni gott starfsumhverfi. Við eigum að tryggja greininni viðunandi stuðning og vernd í samanburði við sambærilegar atvinnugreinar erlendis. Um það er ekki deilt. Við eigum bara ekki að undanskilja þessa atvinnugrein samkeppnislögum. Það er ekkert að óttast við það að grein, sem búin er að fara í gegnum jafn mikla hagræðingu á grundvelli þessarar undanþágu sem raun ber vitni, sé einfaldlega sett aftur undir samkeppnislög svo enginn vafi leiki þar á og að Samkeppniseftirlitið geti haft eðlilegt eftirlit með þessari atvinnugrein líkt og öllum öðrum.

Það er ekkert launungarmál að margoft er Samkeppniseftirlitið gagnrýnt fyrir ýmsar athuganir sínar, rannsóknir og úrskurði. Það er ekkert óeðlilegt við það að einstakar atvinnugreinar takist á við Samkeppniseftirlitið um það hvort rétt sé á málum haldið, hvort úrskurðir séu réttir. Við höfum úrræði til þess að skjóta slíkum málum til úrskurðarnefndar, til dómstóla. Það er þess vegna ekkert að óttast í því að Samkeppniseftirlitið hafi lögsögu með þessari atvinnugrein líkt og öðrum. Ég skil ekki hvaðan þessi ótti er eiginlega kominn og hver tilgangurinn er þá með þessu undanþáguákvæði. Miðað við það hversu takmarkaður rökstuðningurinn var fyrir undanþágunni á sínum tíma er mér lífsins ómögulegt að skilja hversu lítill áhugi hefur verið af hálfu stjórnmálanna allar götur frá þeim tíma, á þessum 14 árum, á því að taka þessa undanþágu til endurskoðunar. Það getur ekki verið svo að slík undanþága eigi að vera ótímabundin. Það hlýtur að koma að þeim tímapunkti að nægjanlegt hagræði hafi náðst fram í greininni til þess að ekki sé ástæða til að undanskilja hana ákvæðum samkeppnislaga. Það er ekkert ólöglegt í samkeppnisrétti að vera stór aðili á markaði, það er bara ólöglegt að misbeita þeirri stöðu. Það er kjarni málsins.

Ég held að það sé ekkert sérstaklega verið að huga að hagsmunum bænda í þessu samhengi. Ég held að hagur bænda væri betri og meiri af því að á þessum markaði ríkti sem mest samkeppni; það tryggði sem mesta vöruþróun, sem mesta samkeppni um framleiðslu bænda á þessu sviði. Og enn og aftur: Það á ekki að vera að rugla umræðunni saman, annars vegar um hagsmuni bænda sem frumframleiðenda í þessari grein og hins vegar um þá hagsmuni afurðasölukerfisins að fá að sitja með einhverjum hætti eitt að markaðnum.

Ég held að það sé löngu tímabært að taka þetta til endurskoðunar. Ég held að það sé ekkert að óttast í því að setja atvinnugreinina aftur með óyggjandi hætti undir samkeppnislög þannig að enginn vafi leiki á, hvorki fyrir Samkeppniseftirlitið sjálf né dómstóla, hvaða lög gildi í því samhengi.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá hljótum við að spyrja okkur: Hefur þessi undanþága skilað ávinningi fyrir neytendur? Þegar ég skoða verðþróun á mjólkurafurðum samanborið við önnur matvæli, aðrar landbúnaðarafurðir, aðrar drykkjarvörur, svo að dæmi sé tekið, þá fæ ég ekki séð að svo sé. Langt í frá. Ég held að það sé alveg augljóst, þegar maður skoðar þessa verðlagsþróun, að þarna er verulegur skortur á samkeppni sem á endanum hefur leitt til mun meiri verðlagshækkana á þessum afurðum en orðið hefur í sambærilegum atvinnugreinum. Við getum tekið kjötframleiðslu, við getum tekið grænmeti — það eru greinar sem hafa hækkað umtalsvert minna verð á vörum sínum en mjólkuriðnaðurinn þrátt fyrir að njóta ekki slíkra undanþágna sem hér um ræðir.

Þetta er gott mál. Löngu tímabært að taka á þessu. Við eigum að geta tekið heilbrigða og skynsamlega umræðu um það. Ég kalla líka eftir því að menn greini þarna á milli, annars vegar mikilvægi þess að samkeppni ríki á sem flestum sviðum atvinnulífs og hins vegar hinnar sjálfsögðu umræðu um það hvernig við eigum að hátta stuðningi við íslenskan landbúnað. Við erum öll á endanum sammála um að hann sé mikilvægur og rétt að styðja við greinina.