148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé nú brött ályktun hjá hv. þingmanni að ætla að allar helstu mjólkurvörurnar mundu hækka í verði vegna þess að verðtilfærsla verði lögð af. Ef við horfum á neysluna þá liggur hún að stærstum hluta í ferskvörunni, þ.e. nýmjólk, léttmjólk, og svo aftur ostum og smjöri, svo koma skyr og jógúrt og annað þess háttar þarna inn í líka. En ég leyfi mér að efast um það, þegar maður horfir á þessar þrjár meginframleiðsluafurðir, ferska mjólk, smjör og osta, að þetta mundi allt saman hækka í verði. Ég hygg reyndar, miðað við þær kynningar sem ég hef fengið frá Mjólkursamsölunni, að það sé einmitt töluverð verðtilfærsla milli ferskmjólkurinnar og osta þannig að ostarnir gætu þá lækkað, en væntanlega mundi ferskmjólkin hækka.

Það má líka spyrja sig: Á hið opinbera að vera í slíkri verðstýringu á milli einstakra framleiðsluvara yfir höfuð? Eigum við að vera í innbyrðis verðstýringu í matarkörfunni ef við viljum niðurgreiða tiltekna vöru á kostnað annarrar? Er ekki bara heilbrigðast og best fyrir sem hagkvæmasta framleiðsluvöruþróun á réttum sviðum o.s.frv. að verðlagningin á þessu sé frjáls og þær vörur sem neytendur sækjast eftir séu þá í réttu jafnvægi? Það er á endanum það sem við horfum á á frjálsum markaði að jafnvægi sé milli framboðs og eftirspurnar og verðlagningin stýrir því auðvitað að töluverðum hluta.

Auðvitað er það líka þekkt að fyrirtæki flytja sjálf opinberar verðstýringar á milli einstakra framleiðsluvara miðað við hvað þau telja verðlagningu vörunnar þola. Ég treysti Mjólkursamsölunni algjörlega til þess svo lengi sem frjáls og öflug samkeppni er á þessum markaði. Ég held að þetta sé ekki eitthvað sem við þurfum að óttast sérstaklega.