148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að það er áhugavert að taka þessa umræðu. Mig langar að velta upp tveimur, þremur punktum sem komu fram í ræðu hv. þingmanns. Það er alveg rétt að við höfum fjölmörg dæmi þar sem við höfum leyft einhvers konar samstarf á markaði, ýmist með beinum hætti í lögum eða þá hefur Samkeppniseftirlit samþykkt ákveðið samstarf aðila. Við þekkjum þetta í olíudreifingu, við þekkjum þetta á fjarskiptamarkaði, raforkudreifing er undir sérlögum. En í öllum tilvikum eru viðkomandi atvinnugreinar undir samkeppnislögum. Við sjáum auðvitað að hér er verið að leyfa samstarf um einhvers konar samrekstur eða sameiginlegt dreifikerfi, ef við horfum á olíudreifingu, fjarskiptamarkaðinn, raforkumarkaðinn, og ég hef sjálfur talið að fullkomlega eðlilegt væri að við horfðum á mjólkuriðnaðinn með sama hætti. Full rök hníga til þess að við ættum að standa sameiginlega að söfnun og dreifingu mjólkur, enda væri gríðarlega mikil innviðafjárfesting fólgin í að reka tvöfalt kerfi. Það er t.d. alveg ljóst að á núverandi markaði gæti enginn annar samkeppnisaðili tekið upp viðlíka kerfi.

Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmaður sjái því til fyrirstöðu að þessi þáttur starfseminnar sé bundinn sérstökum leyfum, reglum um söfnun og dreifingu, en getum við sagt framendi iðnaðarins, þ.e. framleiðsla á neytendavörunum sjálfum, sé undir samkeppnislögum og þess vegna að það sé heilbrigt umhverfi fleiri en eins eða tveggja framleiðenda eins og við þekkjum á hinum mörkuðunum sem ég tók sem dæmi.