148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:32]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að koma hér upp til þess að ræða samband og samskipti Alþingis við hæstv. dómsmálaráðherra. Málatilbúnaður hæstv. ráðherra undanfarna daga um ábyrgð sína og Alþingis í tengslum við skipun dómara í Landsrétt er með nokkrum ólíkindum og hlýtur að vekja upp margar spurningar um upplýsingaskyldu ráðherra til þingsins. Hæstv. ráðherra hefur kosið í málsvörn sinni að varpa allri ábyrgð á herðar þingsins í stað þess að axla þá ábyrgð sjálf eins og henni ber. Nú er komið í ljós að hæstv. ráðherra virti að vettugi ráðleggingar embættismanna í Stjórnarráðinu vegna þess að hyggjuvit hennar og sérfræðiþekking segði annað. Látum það nú vera. Hitt eru forkastanleg vinnubrögð að upplýsa þingið á engu stigi máls um að verulegar efasemdir væru um vinnubrögð hennar og aðferðafræði innan Stjórnarráðsins í þessu stóra máli er varðaði skipan 15 dómara í nýjan dómstól.

Herra forseti. Á þingheimur að sætta sig við þetta?