148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

fylgdarlaus börn á flótta.

[11:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í september 2016 komu hingað til lands tveir ungir hælisleitendur með Norrænu á Seyðisfjörð. Þeir náðust á Breiðdalsvík og sögðust þá vera 16 og 17 ára. Eftir að hafa verið færðir á lögreglustöðina á Egilsstöðum og yfirheyrðir voru þeir settir í hendur barnaverndaryfirvalda og þegar farið var að leita eftir því hvernig ætti að snúa sér í málum drengjanna varð fátt um svör. Þeir voru sendir í læknisskoðun, bólusetningar, aldursgreiningu og viðtöl í Barnahúsi.

Herra forseti. Niðurstaða úr aldursgreiningu á tönnum var sú að drengirnir skyldu njóta vafans og vera áfram í umsjá Barnaverndarnefndar. Fæðingardagurinn 23. desember 1999 var færður inn á skírteini drengsins Husseins sem nú hefur í rúma 80 daga dvalið í gæsluvarðhaldi í fangelsum landsins, gæsluvarðhaldi sem eingöngu er ætlað harðsvíruðum glæpamönnum.

Hann er í gæsluvarðhaldi vegna þess að hann gerði ítrekaðar tilraunir til að leita verndar í öðru ríki þar sem íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um að vinur hans skyldi njóta verndar hér á landi en ekki hann.

Fjallað er um aldursgreiningar í lögum um útlendinga hvar segir að gengið skuli út frá því að umsækjandi um alþjóðlega vernd sem segist vera barn sé álitinn barn við meðferð máls nema það þyki afar ósennilegt eða annað komi í ljós með aldursgreiningu eða öðrum hætti. Ef ekki hefur tekist að leiða í ljós aldur umsækjanda með nægilega tryggum hætti, þrátt fyrir aldursgreiningu, skal viðkomandi njóta vafans og vera meðhöndlaður sem barn.

Því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra: Hyggst hún beita sér fyrir því að íslensk stjórnvöld leggi af ómannúðlegar aðferðir sínar í garð fylgdarlausra barna á flótta í samræmi við ákall og ráðleggingar frá fjölda stofnana hérlendis sem erlendis?