148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

fylgdarlaus börn á flótta.

[11:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefnir hér mál sem mikilvægt er að hafa til skoðunar á hverjum tíma og er mikið álitaefni, ekki bara á Íslandi heldur úti um allan heim. Það er móttaka fylgdarlausra barna, meðferð þeirra og afgreiðsla við hælisumsóknir og þar fram eftir götunum, jafnvel þótt þessi fylgdarlausu börn séu ekki að sækja um hæli. Það er nýtt viðfangsefni fyrir okkur á Íslandi að hingað leiti einstaklingar sem lýsa því yfir að þeir séu börn. Mér skilst að aðeins einu sinni hafi komið hingað fylgdarlaust barn sem lá ljóst fyrir að væri mjög ungt, og var það mál leyst á sínum tíma. En það liggur fyrir að þeim fer fjölgandi sem koma hingað sem menn þurfa að fá staðfest hvort séu raunverulega börn, einstaklingar sem koma hingað án skilríkja. Það liggur fyrir og þarf að vera þannig að meðferð í málum einstaklinga sem eru sannarlega börn er allt annars eðlis en hinna sem ekki eru börn. Ég held að enginn ágreiningur sé um það hjá nokkrum manni.

Þess vegna þarf að skera úr um með eins óyggjandi hætti og hægt er hvort einstaklingur sé barn eða ekki. Í þeim tilvikum sem þurft hefur að gera það á Íslandi hefur það verið gert með heildstæðu mati, með læknisfræðilegu mati, vissulega, en líka með ýmsum öðrum hætti eins og viðtölum við einstaklinga, t.d. í Barnahúsi. Þau fara fram á Íslandi og hafa verið mjög til eftirbreytni og er fylgst mjög vel með því af löndunum í kringum okkur. Eftir því sem mér skilst er það samdóma álit manna erlendis að móttaka fylgdarlausra barna hér sé til mikillar fyrirmyndar og að mjög sé horft til Íslands í þessum efnum.

Það er sjálfsagt að skoða á hverjum tíma hvort leita þurfi ýmissa annarra úrræða til að slá því föstu hver aldur einstaklinganna er.