148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

pólitísk ábyrgð ráðherra.

[11:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður fylgdist með umræðum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær sem var yfir tveggja klukkutíma fundur sem sýndur var í beinni útsendingu á vef Alþingis og er hægt að finna á heimasíðu Alþingis og verður þar um ókomna tíð. Þetta er held ég síðasti fundurinn í langri fundaröð, vonandi ekki síðasti, ég vonast til að ég eigi fleiri fundi með þeirri nefnd og öðrum fastanefndum í opinni dagskrá. En mér er til efs, þótt ég hafi ekki tölfræðina á takteinum, að nokkur ráðherra í lýðveldissögunni hafi komið jafn oft á opna fundi fastanefnda Alþingis og sá ráðherra sem hér stendur og hef ég hvatt til þess að þeir fundir sem ráðherrann hefur sótt, m.a. með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og allsherjar- og menntamálanefnd, eðli máls samkvæmt, séu opnir og í beinni útsendingu. Mér er til efs að nokkur ráðherra hafi mætt á jafn marga fundi og í öllu falli á jafn skömmum tíma og sá ráðherra sem hér stendur og hefur lýst sig reiðubúna til að mæta á alla þá fundi og veita öll þau viðtöl sem lúta að þessu máli eins og frekast er unnt.

Hvað gögn í málinu varðar, vinnugögn og önnur sem hafa orðið til í ráðuneytinu við afgreiðslu þessa máls, hef ég lýst því yfir að það er mér algerlega að meinalausu að öll þau skjöl verði opinber almenningi. Ég hef rætt það og reifaði fyrir löngu síðan í ráðuneyti mínu að þetta yrði allt sett á heimasíðu ráðuneytisins. Sérfræðingar ráðuneytisins hafa hins vegar ráðlagt ráðherranum og sett sig upp á móti því að það verði gert, m.a. með vísan til þess að þarna séu tölvugögn og vinnugögn sem varða samskipti starfsmanna sín á milli. Þar á meðal er einn tölvupóstur sem birtur hefur verið opinberlega (Forseti hringir.) og er mér persónulega alveg að meinalausu, en sá póstur barst mér t.d. aldrei. Hann var tölvupóstur um samskipti starfsmanna sín á milli en barst mér aldrei. En ég hef ekkert við það að athuga að opinbera öll þessi gögn. Þau hafa verið send stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og umboðsmanni Alþingis. (Forseti hringir.) Ég veit ekki að hverju hv. þingmaður er að ýja þegar hún fjallar um einhvers konar leka og nefnir (Forseti hringir.) umboðsmann Alþingis í því sambandi.